Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, var afdráttarlaus í Kastljósi í kvöld þegar hún sagði að albanska konan sem var flutt úr landi, komin 36 vikur á leið, hefði átt að njóta vafans. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í kvöldfréttum RÚV að mat heilbrigðisstarfsmanna eigi að ráða þegar teknar séu ákvarðanir um að vísa hælisleitendum úr landi.

Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt ríkisstjórnina að undanförnu vegna stefnu sinnar í málefnum flóttamanna. Greint var frá því í gær að þunguð, albönsk kona hefði verið flutt úr landi þrátt fyrir að ljósmæður á neyðarþjónustu Mæðraverndar hefðu skrifað í vottorð hennar að ferðalagið heim til Albaníu gæti reynst henni erfitt. 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í kvöldfréttum RÚV, að hún liti svo á að mat heilbrigðisstarfsmanna ætti að ráða. „Eins og var farið yfir í fréttum í gær þá voru þarna kannski einhver óljós skilaboð á milli þannig að mér finnst mikilvægt að það verði farið yfir allt verklag í kringum almennt regluverk í kringum bæði viðkvæma einstaklinga og barnshafandi konur þannig að það sé algjörlega skýrt að heilbrigðissjónarmiðin ráði för. “

Málið var tvívegis rætt á Alþingi í dag, bæði í óundirbúnum fyrirspurnatíma og sérstakri umræða um stöðu hælisleitenda.  Stjórnarandstaðan kallaði eftir því að Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, yrði viðstödd þar sem málið sneri líka að hennar ráðuneyti.  Landlæknir hefur þegar tilkynnt að hann ætli að skoða verklagið í kringum brottvísun albönsku konunnar.

Svandís var gestur Kastljóss í kvöld og tók þar í sama streng og forsætisráðherra.  Væri vafi á því hvort viðkomandi hefði heilsu til þess að fara úr landi eða ekki ætti að túlka þann vafa viðkomandi í hag. Svandís sagði þetta vera einfalt, ef það væru efasemdir sem lytu að því að viðkomandi hefði ekki heilsu til þess að takast á við langt ferðalag ætti heilsa viðkomandi að njóta vafans. 

Heilbrigðisráðherrann var í framhaldinu spurð að því hvort albanska konan hefði þá að átt að fá að fæða barnið hér og fara heim eftir það: „Ja, að minnsta kosti tel ég, án þess að ég fjalli nákvæmlega um þetta mál, að nákvæmlega þarna tel ég að þær upplýsingar sem koma frá heilbrigðisstarfsfólki um ástand konunnar, hafi átt að vera nægilega skýrar til þess að hún hafi átt að fá að vera hér, já. “