Í pistli sínum fjallar Arndís Hrönn Egilsdóttir um skáldkonuna Virginu Woolf og sjálfsævisöguleg skrif hennar, skáldkonu í leit að sjálfri sér og þeim öflum sem hana mótuðu.


Arndís Hrönn Egilsdóttir skrifar:

Það má segja að hin sjálfsævisögulega Sketch of the past sé leit Virginiu Woolf að sjálfri sér. Leit að upprunanum og bernskunni með gleraugum hinnar vitru og þroskuðu konu. Verkið er saga hugleiðinga um sjálfsmynd. Skáldkonan greinir atburði fortíðarinnar út frá sjónarhorni augnabliksins og hvernig hún varð að þeirri konu sem hún var. 

Textinn er uppkast að sjálfsævisögu sem kom ekki út fyrr en löngu eftir dauða hennar. Hún byrjaði að skrifa textann í apríl 1939 en hætti í nóvember árið 1940, fjórum mánuðum áður en hún stytti sér aldur. Með skrifunum reynir hún að ná tangarhaldi á þeim öflum sem móta sjálfið en verkið glímir við sjálfsmyndina og sjálfsmyndarsköpun.

Sjálfið verður til

Sjálfið er jú alltaf í þróun. Það er ekki óbreytt ástand heldur margrætt og getur verið á fleygiferð um allar trissur. Með skrifunum er Woolf að róta í fyrstu minningunum og veltir fyrir sér áhrifum ýmissa atburða á líf hennar auk þess sem hún rýnir í þær tilfinningar sem bærðust innra með henni í barnæsku. Hún er einnig í textanum að rannsaka áhrifin sem atburðir bernskunnar hafa á hana nú og rifja upp og hugleiðir dauða móður sinnar sem lést þegar Virginia var einungis þrettán ára og síðar dauða systur sinnar. Hún fer einnig inn inn á sársaukafull svið þar sem hún rifjar upp kynferðislega misnotkun sem hún varð fyrir af hendi hálfbróður sins og skoðar samband sitt við föður sinn. Virginia hefur þörf fyrir að fara inn í bernskuheimilið, skoða hvernig karlaveldið var innbyggt inn í heimilishaldið og leita að uppsprettu skammarinnar og þessarar sífelldu sektarkenndar í innviðum veggjanna.  

Í verkinu er ansi magnaður kafli sem fjallar um skömmina. Þar er því lýst hvernig Virginia Woolf þorði sem lítil stúlka ekki að horfast í augu við sjálfa sig í spegli. Hún segir frá því þegar Gérard hálfbróðir hennar káfar á henni og hvernig það sundrar henni og umturnar veröld hennar. 

Fulltrúi módernismans í breskum bókmenntum

Nafn Virginíu Woolf hefur ávallt verið sveipað ákveðnum töfraljóma. Ótal bækur og ritgerðir hafa verið skrifaðar um þessa merku skáldkonu enda er hún án efa einn af merkustu rithöfundum tuttugustu aldar. Skáldsögur hennar og smásagnabækur fylla á annan tug og dagbækur hennar hafa verið gefnar út í fimm bindum. Meðal helstu verka hennar má nefna fyrstu skáldsöguna The Voyage out sem kom út 1915 en hún er þroskasaga ungrar konu og á söguhetjan margt sameiginlegt með Woolf.

Skáldsagan To the lighthouse er uppgjör Woolf við fjölskyldu sína og einnig mætti nefna hið merka rit Orlando sem fjallar um mann sem eldist ekki en lifir sem ungur maður í margar aldir þar til hann skyndilega vaknar einn morguninn sem kona. Loks skrifaði Virginia A room of one’s own. Sú bók kom út í þýðingu Helgu Kress árið 1983 undir heitinu Sérherbergi. Woolf var fulltrúi nýrrar bókmenntastefnu, módernismans í breskum bókmenntum, og boðberi nýrra tíma.

Að skrifa í flæði

Virginía Woolf er ásamt Marcel Proust og James Joyce talin frumkvöðull hins nýja prósastíls sem nefndur hefur verið „stream of consciousness“ eða hugflæði sem einkennist af því að textinn er settur fram sem hugsanakeðja sögumanns eða persónu verksins. Ein hugsun vekur upp aðra og þannig spinnst textinn áfram oft mjög ljóðrænn. Sérherbergi er nokkurs konar ritgerð úr tveimur fyrirlestrum sem Woolf hélt haustið 1928 þar sem hún setti fram allar helstu kenningar sínar og hugmyndir um kvennabókmenntir. Hún fór fram á endurmat á bókmenntum kvenna og sagði þær alltaf hafa verið metnar út frá forsendum karla og út frá ríkjandi gildismati sem væri gildismat karla.

Í verkinu hugleiðir Virginía þjóðfélagsstöðu kvenna frá fimmtándu öld og fram á þá tuttugustu og útkoman er slæm. Virginia Woolf kemst að þeirri niðurstöðu að konur þurfi sérherbergi og peninga til að geta búið til góðar bókmenntir. Þær verði að hafa tíma frið, tíma og fjárhagslegt sjálfstæði.  

Glíman við sjálfsmyndina

Dauði Virginíu Woolf hefur verið mörgum umtalsefni og margar bækur hafa verið ritaðar um hann en hún drekkti sér 59 ára að aldri. Hún hafði alltaf dálæti á þeim bókmenntaformum sem alla jafna hefur ekki verið gert hátt undir höfði eins og dagbókum og æviminningum ýmiss konar. Alla ævi var hún gagntekin af ævisagnaskrifum kvenna og velti því fyrir sér hvernig kona skyldi rita æviminningar sínar þar sem hún hefði svo fáar fyrirmyndir og fengi litla hvatningu frá samfélaginu. Munurinn á æviminningum kvenna og karla var henni einnig hugleikinn og hún spurði sig að því hvers vegna konur væru svona bældar og oft á tíðum óöruggar í skrifum sínum. Ævisagnaritari hennar, Hermione Lee, segir að Woolf hafi oft og mörgum sinnum skrifað vinkonum sínum og beðið þær um að skrifa ævisögur sínar. Hún sagði fáar konur hafa skrifað trúverðugar æviminningar.  

Það er ef til vill hægt að segja að verkið Sketch of the past eftir Virginíu Woolf sé minnismerki um sjálf; sundrað, mótsagnakennt og margrætt og í sífelldri endursköpun. Höfundur á í glímu við sjálfsmyndina.  

Sjálfið sem blekking

Form verksins er brotakennt eins og sjálfsmynd hennar. En hún birtist okkur allt í senn sem nostalgísk, þunglynd, veraldarvön, áhyggjufull, siðfáguð, miskunnarlaus, ákveðin, taugaveikluð, írónísk, einmana, einbeitt og óeinbeitt. Hún er alltaf sundruð; aldrei heil. Allt er málað tvíbentum litum. Það væri ef til vill hægt að tala um fagurfræði brotanna og það er á vissan hátt hægt að segja að í forminu sé að finna ákveðna tengingu við sundrað sjálfið. Jafnvel að þar sé að finna birtingarmynd dulvitundarinnar.

Franski sálgreinirinn Jacques Lacan (1901-1981) hélt því fram að dulvitundin væri í raun óþekkjanleg. Hún birtist í brotum og í tungumálinu en að heilt sjálf væri einungis blekking. Sjálfsvera okkar er jú byggð á samspili við aðra. En sjálfsmynd okkar er alltaf að breytast. Sjálfið er margbrotið og ekki alltaf samkvæmt sjálfu sér vegna þess að það á ekki uppsprettu sína í okkur sjálfum heldur hinum, segir Lacan. Þar sem við höfum sagt skilið við það svið sem er án tungumáls og höfum gengist inn í yfirráðasvæði tungumálsins, þá er hægt að segja sem svo að sjálfsmyndin sé í raun sett saman úr tungumálinu. Tungumálið, heldur Lacan fram, er hins vegar ekki okkar eigin og gæti aldrei tjáð það sem við vildum segja ef við værum beintengd við dulvitund okkar. Þegar við yfirgefum ímyndaða sviðið og förum yfir á hið táknræna, inn á yfirráðasvæði föðurins þar sem tungumálið og skynsemin ráða ríkjum þá töpum við eins og áður hefur komið fram þessari tilfinningu að vera heil og sú tilfinning, segir Lacan, mun alltaf fylgja okkur. Gjáin, tómið er alltumlykjandi. Hann vildi meina að sjálfsævisöguleg skrif væru tilraun til að ná utan um hið ómögulega og sjálfið væri í raun óþekkjanlegt.

Sjálf kvenna sundrað

Margir feminískir fræðimenn hafa réttilega bent á heilmikla eyðu í sögunni hvað varðar sjálfsævisöguleg skrif kvenna og að þær hafi átt ógreiðari leið inn í hefðarveldi sjálfsævisagna. Rödd þeirra verið utanveltu. Þær passa oft á tíðum illa við skilgreiningar hefðarinnar og hafa oft á tíðum þótt ómerkilegri og verið útilokaðar. Sjálf karla sé heilt á meðan sjálf kvenna sé sundrað, margfalt og óöruggt. Greinendur á borð við  Jacques Lacan og Júlíu Kristevu hafa til að mynda séð í skrifum Virginíu Woolf hið uppleysta og brotakennda. Kvenlegt mótvægi við hið karllæga formfasta og heila. Að sögn fræðikonunnar Shari Benstock er texti Virginíu Woolf dæmi um hvernig sjálfið sem ætti að vera miðpunkturinn er sundrað og dreift, eða jafnvel fjarverandi í sjálfsævisögum kvenna. Það má ef til vill segja að í sjálfsævisögulegum skrifum sínum hafi Woolf beinlínis dreift sér inn í fortíðina.