Nú í septemberbyrjun rata börnin í hefðbundið skólanám sem og fjölmargir sem nýta sér hið fjölbreytta starf og námskeið ýmissa íþróttafélaga og annarra samtaka. Karatefélag Reykjavíkur er til húsa í kjallara sundlaugarinnar í Laugardal.
Þetta er fyrsti dagurinn þannig að það gengur mikið á. Við erum fyrstu tvær vikurnar í undirbúningi, bæði að fá nýja iðkendur og gamla inn í hús,“ segir Ólafur Hreinsson þjálfari hjá Karatefélagi Reykjavíkur. Félagið er með aðsetur í kjallara sundlaugarhússins í Laugardal. „Við erum búin að vera hér í talsvert langan tíma, komum hérna 1987. Það eru ekki allt of margir sem vita af okkur hérna í kjallaranum en við höfum svona náð að grípa einn og einn sem eru að fara í sund til að koma og æfa, Fjöldinn hefur svona margfaldast í gegnum árin. Við fengum líka loks að setja utan á húsið skilti, fyrir einhverjum misserum síðan. Margir mæta einmitt hingað og eru hissa á því að við séum hér að æfa sjálfsvarnaríþróttir í kjallaranum,“ segir Ólafur.
Karate og aðrar sjálfsvarnaríþróttir njóta sífellt meiri vinsælda hjá og þá hjá öllum aldurshópum. „Við bjóðum upp á námskeið hér alla vikuna, æfingar fyrir fullorðna alla virka daga og eiginlega sama fyrir börnin. Þegar þú mætir hérna þá ert þú alfarið á þínum forsendum. Hér hjá okkur tökum við á móti krökkum sem eru byrjuð í fyrsta bekk í grunnskóla, það er okkar yngsti hópur,“ segir Ólafur og ítrekar að iðkendur séu svo aldrei of gamlir til þess að stunda karate. „Nei, aldrei of gamall. Hingað inn dettur fólk á öllum aldri. Alveg frá 6 ára og upp í ellilífeyrisaldurinn,“ segir Ólafur.
Allir nemendur Karatefélags Reykjavíkur þurfa að temja sé ákveðin vinnubrögð á námskeiðunum og þurfa meðal annars að hneigja sig í bak og fyrir. „Við förum eftir hefðum hérna. Þú berð virðingu fyrir þessari íþrótt sem þú stundar, húsinu sem kemur inn í og mörgum öðrum hefðum sem þarf að fara eftir,“ segir Ólafur. Hann nefnir að þær æfingar sem stundaðar eru hjá félaginu séu ekki æskilegar utandyra. „Það má ekki beita þessu út á við. Við reynum auðvitað að halda þessu alfarið hér innandyra. Það er gerð krafa til allra iðkenda að fara ekki með þessar æfingar út á götu,“ leggur Ólafur áherslu á.
Í hinum fornfrægu karatemyndum fylgdu þeim sem stunduðu íþróttina mikil öskur og óhljóð. Ólafur segir það ekki endilega nauðsyn en þau sé fyrir marga mjög mikilvæg. „Þessi hljóð eru í raun öndun sem við leggjum mikla áherslu á. Við erum að þenja líkamann og nota tækni sem krefst þess af líkamanum að nota rétta öndun,“ segir Ólafur og svarar því til að leikarinn Bruce Lee hafi verið að gera allt rétt. „Hann var að gera þetta rétt. Þetta var alvöru kall, fór bara allt of snemma,“ segir Ólafur.
Viðtal Andra Freys við Ólaf Hreinsson má heyra með því að smella á myndina hér efst í fréttinni. Að auki ræður Andri við þau Úlf, Fróða og Unu sem öll iðka karate hjá Karatefélagi Reykjavíkur.