Fyrir 25 árum sigraði skáktölvan ChessGenius þáverandi heimsmeistara í skák, Gary Kasparov. Þetta var í fyrsta sinn sem tölva lagði heimsmeistara í skák að velli án allra tímatakmarkana.

Viðureignir sem Kasparov háði við nýjar og máttugar tölvur á 9. og 10. áratug síðustu aldar þóttu æsileg og hádramatísk einvígi. Það má því segja að sumarið '94 hafi tölvan farið fram úr manninum. Freyr Eyjólfsson sagði hlustendum Morgunvaktarinnar á Rás 1 frá þessum merku tímamótum.

Þær voru dramatískar fyrirsagnirnar  þegar einn frægasti heimsmeistari allra tíma, Gary Kasparov atti kappi við tölvur í skák, sér í lagi hina margfrægu Djúpblá.  Á örfáum árum tóku tölvurnar miklum stakkaskiptum og þróuðust hratt, á meðan maðurinn stóð í stað. 

Árið 1985 tefldi Kasparov fjöltefli við 32 mismunandi skáktölvur sem hann fór létt með að sigra. Að mati hans og annarra skáksérfræðinga voru tölvurnar fyrirsjánalegar í skák sinni, of „rökréttar“, það vantaði hið óvænta, hið mannlega í leik tölvunnar og því auðvelt að plata þær og leiða þær í gildrur. Miklar umræður sköpuðust í kringum þessi einvígi; hvort mögulegt væri að hanna tölvu sem væri máttugri en mannshugurinn. Hvenær myndu tölvurnar fara framúr manninum?   

Það gerðist 31. ágúst 1994 þegar skáktölvan ChessGenius lagði þáverandi heimsmeistara Gary Kasparov að velli í einni skák, en svo má segja að það hafi gerst fyrir alvöru árið 1997 þegar skáktölvar Djúpblá sigraði Kasparov í  alvöru skákeinvígi. Kasparov, sem var alla tíð forvitinn og áhugasamur um gervigreind, var bæði tapsár en líka heillaður eftir einvígið og sagði m.a.: 

„Í stað tölvu, sem hugsaði og tefldi eins og maður, með mannlegum sköpunarkrafti og innsæi, sköpuðu þeir tölvu, sem tefldi eins og vél, mat kerfisbundið 200 milljónir mögulegra leikja á skákborðinu á sekúndu og sigraði með óbeislaðri getu til að bryðja tölur.“ 

Niðurstaðan lá engu að síður fyrir: tölvan vann manninn í einni flóknastu íþrótt sem til er, skáklistinni.

Hægt er að hlusta á pistil Freys í heild sinni í spilaranum hér að ofan.