Á Hvammstanga er sumardeginum fyrsta fagnað á alveg sérstakan hátt. Þar er sumarið ekki komið fyrr en Vetur konungur hefur formlega afsalað sér völdum og fært Sumardísinni veldissprota sinn.

Allt byrjaði þetta árið 1957. Þá höfuð vinkonurnar Lilla, Magnea og Hulda stofnað fegrunarfélag í þorpinu. Eitt af þeirra fyrstu verkum var að koma upp fallegum garði við sjúkrahúsið og ákveðið var að halda hátíð á sumardaginn fyrsta í fjáröflunarskyni. Vinkonunum þótti upplagt að láta Vetur konung og Sumardísina vera í aðalhlutverki á hátíðinni og láta þau hafa formleg valdaskipti.

Og hátíðin varð að hefð. Núna, tæpum 60 árum síðar, geta íbúar á Hvammstanga ekki hugsað sér að fagna sumarkomunni öðruvísi en einmitt svona. Þær Magnea og Hulda eru látnar en Lilla mætir enn í félagsheimilið að morgni sumardagsins fyrsta og hjálpar Vetur konungi og Sumardísinni að klæða sig í búningana sem þær vinkonurnar saumuðu vorið 1957.

Landinn fylgdist með hátíðahöldunum á Hvammstanga.

Þáttinn í heild er hægt að sjá hér. Landinn er einnig á Facebook sem og á YouTube og Instagram: #ruvlandinn.