Styrkja þarf fjölbreytt úrræði í geðheilbrigðismálum sagði Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Hann sagðist leggja ríka áherslu á geðheilbrigðismál. Styrkja ætti fjölbreytt úrræði, meðal annars með styrkingu Barna- og unglingageðdeildar, og sterkari heilsugæslu og fleira. „Samtals er áætlað að því að verja ríflega milljarði króna til 2022 til að efla geðheilbrigðisþjónustu,“ sagði Óttarr.
„Hvert einasta sjálfsvíg er harmleikur. Hvert sjálfsvíg er ósigur fyrir samfélagið, ósigur fyrir okkur öll.“ Hann sagði aldrei hægt að samþykkja að sjálfsvíg væru eðlileg eða óumflýjanleg. Við vitum að nú þegar er mörgum bjargað og það er þakkarvert sagði Óttarr en tók fram að gera þyrfti betur. Þetta væri verkefni samfélagsins alls, kerfsins, ættingja og vina, og stjórnmálamanna.
Óttarr vísaði í rannsóknir sem sýndu góða stöðu á Íslandi í mörgum málaflokkum. Hann sagði að ýmislegt yrði þó að bæta. Þar nefndi hann sérstaklega ákvæði um uppreist æru og sagði að þegar ný útlendingalög tryggðu ekki rétt barna væri ástæða til að lagfæra lögin.
„Við þurfum að hafa hugrekki til að hugsa og byggja upp til langs tíma. Byggja undir stöðugleika svo við séum ekki alltaf að eiga við afleiðingar síðustu kollsteypu eða í nauðvörn til að koma í veg fyrir þá næstu,“ sagði Óttarr.
Hann sagði að skapa þyrfti svigrúm svo fólk gæti blómstrað.