Nýsjálendingar minntust í gær þeirra sem fórust í eldgosi á Hvítueyju fyrir viku. Forsætisráðherra landsins bað aðstandendur að búa sig undir það að rannsókn málsins gæti tekið nokkurn tíma.
Átján fórust á Hvítueyju
Átján eru látin eftir eldgosið á Hvítueyju undan ströndum Nýja-Sjálands í síðustu viku. Eldgosið hófst fyrirvaralaust á mánudag fyrir viku. Fjörutíu og sjö ferðamenn voru á eynni þegar gosið hófst. Margir þeirra sem komust lífs af brenndust alvarlega. Vísindamenn höfðu lýst því yfir að fjallið gæti gosið á hverri stundu og því hafa margir óskað eftir rannsókn á því hvers vegna var farið með ferðamenn á eyjuna. Forsætisráðherra landsins, Jacinda Ardern, sagði á fundi með blaðamönnum í dag að rannsóknin geti tekið nokkurn tíma.
Fyrirvari á Heklugosi líka stuttur
Þó eldstöðin á Hvítueyju sé ólík Heklu hér heima, þá eiga þær það sameiginlegt að fyrirvarinn sem vísindamenn hafa til að segja fyrir um gos er mjög stuttur. Spegillinn ræddi við Kristínu Jónsdóttur hópstjóra náttúruvárvöktunar á Veðurstofu íslands um gosið á Hvítueyju og hvað beri að varast í Heklugosum hér heima.