Þrátt fyrir bann KSÍ við því að fólk kæmi með þvottabursta á landsleik Íslands og Tyrklands í kvöld reyndu nokkrir að koma slíkum gripum inn á völlinn. Bæði Íslendingar og Tyrkir voru staðnir að því að reyna að komast inn á völlinn með þvottabursta.
Spurður hvort þvottaburstar hafi verið teknir af einhverjum svaraði Víðir Reynisson, öryggisstjóri KSÍ, eftir leik: „Við gerðum það nú, en það merkilega við það er að það var hjá báðum liðum. Það var augljóst þegar við höfðum afskipti af því fólki að þetta átti að vera eitthvert létt grín. Af því urðu ekki frekari eftirmál.“
Víðir sagði að vel hefði tekist til á leiknum, hann hefði farið friðsamlega fram og yrði best lýst sem sigri fótboltans.