Strokkvartettinn Siggi hefur undanfarin ár skipað sér í röð fremstu strengjakvartetta landsins. Fyrr á árinu hlaut hann íslensku tónlistarverðlaunin sem tónlistarflytjandi ársins í flokki hópa og nú á dögunum kom fyrsta hljómplata Sigga út á vegum bandarísku útgáfunnar Sono Luminus.

Kvartettinn er skipaður þeim Unu Sveinbjarnardóttur og Helgu Þóru Björgvinsdóttur á fiðlur en hjónin Þórunn Ósk Marinósdóttir og Sigurður Bjarki Gunnarsson leika á víólu og selló. „Þetta byrjaði nú þannig að við vildum spila meiri kammermúsík saman og við vildum hafa fasta grúppu,“ segir Þórunn Ósk. „Við vorum að spila mjög mikið af kammermúsík almennt með fullt af frábæru fólki og það er alltaf jafn skemmtilegt en það gerist eitthvað þegar maður festir hóp í sessi og maður fer að vinna reglulega.“ 

Það er algengur misskilningur að kvartettinn sé nefndur eftir Sigurði Bjarka. „Það er mikið spurt um þetta nafn og það má segja að þar með sé tilgangnum kannski náð,“ segir hann. „Þegar hópurinn varð til vorum við á Ung Nordisk Musik. Þar vorum við að fást við ýmislegt, spila með tannþræði á hljóðfæri og hitt og strjúka statíf, þannig kom nafnið strokkvartett.“

„Svo var alltaf verið að spyrja: Hvað heitið þið?“ skýtur Þórunn inn í. Þá vorum við rétt að byrja og Siggi var svona vinnuheiti sem festist samstundis. Það var ekki hægt að breyta.“

„Svo höfum við verið í mörg ár að reyna að berja þetta af mér að ég hafi verið svona frekur,“ grínast Sigurður. Tónleikar Strokkvartettsins Sigga hafa vakið athygli vegna mikillar breiddar í efnisvali en auk þess að spila klassíska tónlist sem nær allt aftur til endurreisnartímans hefur kvartettinn stuðlað að nýsköpun í samtímatónlist og frumflutt fjölda tónverka.

„Þegar maður byrjar að spila í strengjakvartett, efnisskráin er svo svakalega rík, manni langar helst að gera allt og er eins og krakki í nammibúð. En þegar maður fer að vinna með nýsköpun því meira langar manni að gera af því. Þegar kemur að nýjum verkum sem hafa ekki verið flutt áður hefur maður meira frelsi og það er ofboðslega gaman að taka músík, byrja að púsla henni saman frá grunni og sjá hvað kemur út. Stundum höfum við ekki hugmynd um það fyrr en við heyrum upptöku af því eftir á.“ 

Nýi diskurinn nefnist South of the Circle en þar flytur kvartettinn verk eftir Daníel Bjarnason, Unu Sveinbjarnardóttur, Valgeir Sigurðsson, Mamíkó Dís Ragnarsdóttur og Hauk Tómasson. „Við erum búin að spila íslenska kvartetta frá því við byrjuðum og okkur fannst vera komin tímapunktur til að hljóðrita eitthvað af þessu efni. Þetta er mjög fjölbreytilegt og sýnir þversniðið. Það er svolítið athyglisvert að í Ameríku, þar sem diskurinn er gefin út, er eins og allir geri ráð fyrir að það sé einhver íslenskur tónn og kemur á óvart að það sé fjölbreytni jafnvel. En auðvitað er einhver íslenskur tónn. Ég held að einangrun, þótt við séum tengd umheiminum, þá gefi hún alltaf blæbrigði á sköpun og á listir.“

Fjallað var um Strokkvartettinn Sigga í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.