Í síðustu viku varpaði mannlaus dróni frá Bandaríkjaher sprengju sem grandaði íranska hershöfðingjanum Qasem Soleimani. Síðan þá hefur gríðarleg spenna verið í samskiptum Bandaríkjanna og Írans, og stríð jafnvel yfirvofandi. Halldór Armand Ásgeirsson fjallar um málið og setur í samhengi við gólfmottu sem honum áskotnaðist fyrir nokkrum árum.
Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:
Ég á mjög einkennilega, eða við skulum segja forvitnilega, gólfmottu og ég get viðurkennt það hér, örlítið skömmustulegur, að ég hef falið þessa mottu, oftar en einu sinni, fyrir gestum. Ástæðan er sú að ég hef ekki treyst mér til þess að útskýra áhuga minn á þessari mottu fyrir hverjum sem er. Þetta er svokölluð stríðsmotta sem ég fékk frá Pakistan og sýnir myndrænt árásina á Tvíburaturnana árið 2001. Við sjáum tvo turna, flugvélar, sprengingar, bandarískt flugmóðurskip og fyrir miðri mynd, á mottunni miðri sem sagt, flýgur dúfa með lárviðarlauf í goggnum. Teikningarnar eru hráar og naívískar, svolítið eins og þær séu gerðar af hæfileikaríku barni, og ofarlega stendur í hástöfum „THE TERRORS WERE IN AMERICA“, hryllingurinn átti sér stað í Bandaríkjunum.
Eins og ég segi, ég geri mér algjörlega grein fyrir því að einhverjum kynni að þykja það galið að vilja eiga svona mottu en sagan á bak við hana er áhugaverð. Hinar svonefndu stríðsmottur komu fram á níunda áratugnum þegar Sovétmenn réðust inn í Afganistan. Í stað þess að túlka daglegt líf í list sinni með því sauma myndir af úlföldum, kjúklingum og vatnskönnum í motturnar tóku afganskir vefarar að búa til mottur með myndum af Kalashnikov-rifflum, rússneskum skriðdrekum og MIG-þotum. Þannig voru stríðsátökin, sem vitaskuld settu svip sinn á allt daglegt líf, birt og túlkuð í alþýðulistinni þar í landi. Stríðsmottur eru með öðrum orðum eitthvað sem er kannski í okkar augum framandi og jafnvel hálf súrrealískt, en eru eðlilegur hluti af þeirri fornu og glæsilegu list að túlka samtíma sinn og menningu í vefnaði.
Þetta er svo ástæða þess að ellefti september byrjar að birtast í slíkum mottum á 21. öldinni. Sá yfirgengilegi atburður hafði auðvitað víðtæk áhrif um allan heim, en hvergi jafn mikil og í þessum heimshluta, augljóslega. Og mottan mín, eins og aðrar ellefta september-mottur, er hvorki lofsöngur né harmkvæði um árásina, heldur einfaldlega túlkun listamanns á því sem gerðist.
Áfall og brandari í senn
Síðasta áratuginn hefur hið svonefnda stríð gegn hryðjuverkum sömuleiðis að megninu til farið fram í þessum sama heimshluta og þá fyrst og fremst með fjarstýrðum drónum. Þess vegna eru líka til drónamottur. Fallegar og litríkar mottur, sem þegar grannt er skoðað, birta útlínur Predator-dróna. Aftur; það er ekkert skrýtið þegar maður hefur í huga sögu og merkingu slíkrar vefnaðarlistar og umhverfið sem hún er sköpuð í. Ef við hér á Íslandi þyrftum að búa við það árum eða áratugum saman að erlend hernaðardrón sveimuðu hérna yfir höfði okkar og sendu reglulega frá sér mannskæðar eldflaugar til jarðar, þá myndi það án nokkurs vafa koma fram í íslenskri alþýðulist.
Af hverju langaði mig svona mikið í ellefta september-mottu? Ég veit það ekki. Mér fannst þetta bara áhugavert og mér finnst gaman að eiga einkennilega hluti. Svo oft er það hið óvænta sem gefur lífinu lit. Þegar þessar mottur urðu fyrst á vegi mínum trúði ég ekki eigin augum. Ég skellti upp úr og hláturinn bar keim örvæntingar, þetta var í senn áfall og brandari, sem svo oft er vísbending um eitthvað magnað. Og þegar ég lærði söguna að baki þessum mottum, fékk innsýn í þann menningarheim sem þær endurspegla, skildi ég að þær voru auðvitað miklu dýpra og merkilegra fyrirbæri en mig hafði órað fyrir.
Í liðinni viku felldi Bandaríkjastjórn íranska hershöfðingjann Qasem Soleimani með eldflaug í í Írak. Morðið er að mörgu leyti tákn um tíma okkar. Maður frá ríki A er felldur með eldflaug úr fjarstýrðum dróna, eða dróni eins og mér finnst að slíkt fyrirbæri eigi að heita á íslensku, á vegum ríkis B, en á landsvæði ríkis C. En þótt Soleimani hafi verið áhrifamikill karl og fengið píslarvættisdrauma sína uppfyllta, þá finnst mér ólíklegt að hann muni nokkru sinni birtast á mottu.
Akkilles og Príam Trójukonungur
Ég kalla þetta hér morð, en var þetta morð? Í tilkynningu frá Bandaríkjastjórn sagði, eins og við var að búast, að árásin á bílalest Soleimanis hefði ekki verið aftaka, heldur varnaraðgerð. Það er vegna þess að lögfræðilega réttlætingin á slíkri aðgerð og um leið réttlætingin fyrir svo ofboðslegri íhlutun í sjálfsákvörðunarrétt annars ríkis og forræði þess yfir eigin landsvæði, grundvallast alltaf á hugmyndum um sjálfsvörn. Af sömu ástæðu sagði Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að árásin hefði verið gerð á Soleimani vegna „þeirrar yfirvofandi hættu sem steðjaði að lífi bandarískra ríkisborgara.“ Það er ekki tilviljun að hann notaði þetta orð „yfirvofandi“, eða „imminent“, vegna þess að almennt er viðurkennt í þjóðarétti að eitt af meginskilyrðum þess að ríki megi beita sjálfsvarnarrétti skv. 51. grein Sáttmála Sameinuðu þjóðanna er það að verið sé að bregðast við yfirvofandi hættu.
Ég veit ekki til þess að færðar hafi verið fram miklar sannanir fyrir yfirvofandi hættu í þessu tilviki og eitthvað segir mér að þær muni ekki koma fram.
Hugmyndir um hvað getur talist réttlátt stríð hafa verið til frá örófi alda og blóðugar styrjaldir hafa sömuleiðis alla tíð haft siðferðilega vídd. Það þarf ekki annað en að lesa um Trójustríðið í Iljónskviðu til þess að átta sig á því. Hér er mér til dæmis hugsað til senunnar mögnuðu í lok kviðunnar þegar Akkilles verður við bón Príams Trójukonungs um að skila honum líki sonar síns, Hektors, fremsta stríðsmanns Tróju, sem Akkilles drap í orrustu, svo Trójumenn geti syrgt og grafið Hektor með reisn. Hinn aldraði Príam krýpur við fætur hins ógurlega Akkillesar, kyssir hendur hans og segir: „Ég hef haft þá raun sem enginn annar jarðneskur maður hefur haft, að bera hendur sonarbana míns upp að vörum mínum.“ Svo gráta þeir saman, Akkiles og Príam, mesti stríðsmaður Argverja og konungur Tróju, yfir þeim hryllingi sem styrjaldir eru. Þetta er svakaleg sena. Þarna eru samankomnir tveir andstæðingar sem hafa fært miklar fórnir, Akkilles hefur misst besta vin sinn Patróklos og veit fyrir víst að hann er sjálfur feigur og Príam hefur misst son sinn, Hektor.
Alþjóðalög eru máttlaus
En ég þarf að passa mig að hrapa ekki að of miklum ályktunum bara vegna þess að stríðsmenn fornaldar voru aðeins flottari týpur en ráðamenn heims í dag. Ég er ekki viss um það hvort drónahernaður á borð við þann sem felldi Soleimani í Bagdad feli í sér eðlisumbreytingu á því hvernig stríð fara fram. En hann er að minnsta kosti skref í átt mikillar firringar og mig grunar að reiði og hefndarþorsti þeirra, sem verða fyrir slíkum hernaði, sé meiri en ella, einmitt vegna þess hversu lítilmótlegt og auðvirðilegt er að skjóta eldflaugum á fólk úr mannlausum loftförum sem er fjarstýrt úr hægindastólum í annarri heimsálfu. Það er ekki mikil sæmd yfir þessu eða heiður.
Annað sem drónahernaður sýnir okkur fram á er máttleysi alþjóðalaga. Að fljúga vélmennum yfir lögsögu annars ríkis og skjóta eldflaugum niður á íbúa þess er vitaskuld brot á öllum helstu grunnákvæðum alþjóðalaga og að réttlæta það með vísun í einhvers konar forvirka sjálfsvörn krefst ansi frjálslegrar og skapandi lagatúlkunar svo ekki sé meira sagt. Varið er meiriháttar púðri og peningum til þess að setja saman þessa óteljandi alþjóðasamninga sem eru í gildi á heimsvísu en þegar öllu er á botninn hvolft á það sama við um slík lög og öll önnur lög – þau gilda upp að því marki sem ráðamenn vilja. Í þessu tilviki eru ráðamenn þau ríki heims sem eru of valdamikil til þess að nokkur geti sagt neitt við þau.
Hér á Íslandi lifum við ekki við það að vopnuð, erlend stríðsvélmenni flögri yfir heimkynnum okkar og taki líf okkar upp á myndband, en staðreyndin er sú að heimurinn þyrfti ekkert að vera neitt sérstaklega mikið öðruvísi til þess að sú yrði raunin, og í því tilviki, gætum við hreinlega ekkert sagt eða gert. Þessi tilhugsun er eitthvað það allra viðbjóðslegasta sem ég get ímyndað mér, og þessi andstyggilega tilfinning er eitthvað tengd áhuga mínum á stríðsmottunum. Þær eru tenging við veruleika sem guðirnir hafa, af engri sjáanlegri ástæðu, hlíft mér við og þar með kannski þörf áminning um að ég verð aldrei stundarkorn eins og Akkilles.