Héraðssaksóknari hefur til skoðunar mál þar sem talið er að málverk eftir Stórval hafi verið fölsuð. Uppboð á tveimur slíkum verkum var stöðvað á mánudag. Sérfræðingur segir falsanirnar nýjar og óttast að fjölmörg slík verk séu í umferð.
Stefán Jónsson frá Möðrudal, sem í daglegu tali gengur undir nafninu Stórval, var afkastamikill listmálari, og hvað þekktastur fyrir myndir sínar af Herðubreið. Stórval lést árið 1994. Verð á verkum eftir hann hefur hækkað á undanförnum árum, og er algengt verð á málverkum hans á bilinu 200 til 300 þúsund krónur.
Á uppboði í Gallerí Fold á mánudaginn stóð til að bjóða upp tvær myndir eftir Stórval. Skömmu fyrir uppboðið fór uppboðshaldarana hins vegar að gruna að verkin væru fölsuð.
„Við fengum um það ábendingar og höfðum okkar efasemdir einnig. Við skoðum öll verk sem við bjóðum upp og eftir þessar ábendingar og skoðun, þá kölluðum við til Ólaf Inga sem hefur verið að skoða verkin hjá okkur, og þannig fór boltinn af stað,“ segir Jóhann Ágúst Hansen, framkvæmdastjóri hjá Gallerí Fold.
„Alveg viss“
„Á þessum myndum er það undirskriftin sem leiðir þig áfram og þegar hún er skoðuð sést að hún er ekki með neinum eðlilegum hætti. Og er ekki lík, heldur meira stafagerð þar sem er verið að herma eftir raunverulegri undirskrift,“ segir Ólafur Ingi Jónsson, forvörður hjá Listasafni Íslands.
Þá segir Ólafur að meðferð lita og efnið sem notað er staðfesti einnig að myndirnar séu falsaðar. „Eins er það litapalletan og skil á milli lita, meðferðin á málningunni og svo framvegis.“
Þannig að þú ert alveg öruggur á því að þetta séu falsanir?
„Já ég er alveg viss um það.“
Telurðu að þetta séu nýjar eða nýlegar falsanir?
„Þær eru mjög nýlegar.“
Þannig að þær gætu þess vegna verið nokkurra ára gamlar?
„Já þær eru það örugglega.“
Man ekki eftir verkunum
„Í þessu tilfelli var það einstaklingur, góður viðskiptavinur hjá okkur, sem kemur með þessi verk,“ segir Jóhann. „Viðskiptavinur sem við höfum verslað við í mörg ár og höfum ekkert nema gott um að segja. Ég hugsa að hann sé grandalaus í þessu máli.“
Sá hafði fengið verkin í Rammamiðstöðinni við Síðumúla. Fréttastofa fór þangað ásamt Ólafi Inga í dag, og sýndi eiganda fyrirtækisins verkin, sem sagðist ekki muna eftir þeim og að hann hefði engar upplýsingar um eigendasögu þeirra.
Ólafur segir að sitthvað í frágangi verkanna bendi til þess að mörg slík hafi verið framleidd. „Og ég óttast að þetta sé töluvert magn, miðað við fyrri störf.“
Jóhann tekur undir þetta. „Og ég er ansi hræddur um að það sé á stærri skala en við vitum um núna.“
„Ef það er þannig, þá er það ótrúlegt að það sé að fara af stað annar hringur og umgangur falsana,“ segir Ólafur sem vísar þar til stóra málverkafölsunarmálsins sem kom upp á tíunda áratug síðustu aldar.
Endalaus barátta
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfesti í samtali við fréttastofu í dag að málið sé til skoðunar hjá embættinu. Málið sé nýkomið inn á borð embættisins og að ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.
„Ef ekkert er að gert þurfum við endalaust að berjast við þetta um alla ókomna framtíð og þetta getur eyðilagt markað með ákveðna listamenn sem lenda í þessu. Þannig að þetta er mjög slæmt fyrir orðspor listamannanna og markaðinn í heild,“ segir Jóhann.
Þannig að þú telur að stjórnvöld og lögregla þurfi að grípa til aðgerða?
„Það held ég að sé rakið. Það verður að stoppa þetta. Það er allt of mikið af fölsunum á markaði og það verður að hreinsa þetta.“