Stærsti sigur Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni var sú að flokkurinn stóð alltaf vörð um almannahagsmuni í baráttunni, sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, þegar hann ávarpaði fólk á kosningavöku Samfylkingar fyrr í kvöld.
Árni Páll sagði að Samfylkingin hefði tekist á við mjög erfið verkefni í ríkisstjórn og það hefði bitnað á henni. „Við töpuðum ekki fylgi vegna þess að við gáfum vildarvinum okkar banka," sagði Árni Páll. Hann sagði að fylgið hefði tapast vegna verka sem hefði orðið að ráðast í. Hann sagði að Samfylkingin væri stór flokkur þar sem væri vítt til veggja en yrði líka að þola það að verða lítil í þessum kosningum. Árni Páll sagði að sú tíð kæmi aftur að þjóðin þyrfti sterkan jafnaðarmannaflokk.