Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fór fram á við samgönguráðherra að hann frestaði undirritun samkomulags ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu í samgöngumálum. Fjármálaráðherra lýsti áhyggjum af því hve há hlutdeild ríkisins í kostnaði verkefnisins væri og kallaði jafnframt eftir nánari útfærslu veggjalda. 

Núningur er milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks um samkomulagið sem Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra kynnti kjörnum fulltrúum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu á þriðjudag. Samkomulagið var í framhaldinu kynnt á fundi stjórnarþingmanna. Þar lýsti fjármálaráðherra óánægju sinni með hversu stór hluti framkvæmdanna yrði fjármagnaður af ríkinu og gagnrýndi jafnframt að það lægi ekki nægilega skýrt fyrir hvernig vegjöld yrðu útfærð. Hann fór fram á að undirritun yrði frestað, samkvæmt heimldum fréttastofu innan úr stjórnarþingflokkunum. Ætlunin var að undirrita samkomulagið síðar sama dag, en það hefur enn ekki verið gert. 

Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að um 120 milljörðum króna verði varið til vegamála á höfuðborgarsvæðinu á næstu 15 árum. Af þeim fara rétt tæpir 50 milljarðar króna í að leggja Borgarlínu og rúmir 52 milljarðar í lagningu stofnbrauta. Hlutur sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu verður 15 milljarðar og ríkisins um 50 milljarðar, restin verður fjármögnuð með veggjöldum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var almenn ánægja með grunnhugmyndina að samkomulaginu meðal stjórnarþingmannanna þótt tekist hafi verið á um útfærslur á fundinum. Hluti þingflokks Sjálfstæðisflokksins kallaði til að mynda eftir því að þess yrði gætt að hlutfall almenningssamganga í samkomulaginu yrðu ekki of hátt og á kostnað einkabílsins. 

Sigurður Ingi sagðist þó í kvöldfréttum RÚV ekkert kannast við þennan núning. „Við munum klára þessa vinnu með sveitarfélögunum, það hefur gengið mjög vel. Vonandi undirrita og kynna bara fljótlega næstu daga,“ segir hann.  

Frm: Nú höfum við heyrt frá mörgum sem voru á þessum fundi á þriðjudag að það hafi verið að minnsta kosti núningur, jafnvel meira. Það var ætlunin að undirritað samkomulagið á þriðjudaginn, en því hefur ítrekað verið frestað. Hvers vegna var því frestað? 

Sigurður Ingi: Því hefur hvorki verið frestað ítrekað eða nokkuð, við höfum verið að vinna þessa vinnu og við erum á endametrunum. Vinnan hefur gengið mjög vel í samstarfi við öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er tímamótasamkomulag og hefur ekki tekist í samskiptum ríkis og sveitarfélaga í mjög mjög langan tíma, að fá heildarsýn og það er enginn núningur á milli stjórnarflokkanna um það. 

Frm? Mun samkomulagið taka breytingum frá því sem það var kynnt á þriðjudaginn og þar til það verður undirritað? 

Sigurður Ingi: Ekkert samkomulag hefur verið kynnt. Við erum í vinnu sem við erum að ljúka og þegar við höfum lokið þeirri vinnu þá verður samkomulagið undirritað og kynnt. 

Frm: Nú stóðu þeir kjörnu fulltrúar sem voru á fundinum í þeirri trú að þetta væri samkomulag sem við þið væruð að kynna, en þú vilt ekki meina að það hafi verið þannig? 

Sigurður Ingi: Við vorum að kynna niðurstöðu þeirrar vinnu og síðan tókum við ábendingar frá þeim fundum sem við vorum með. Meðal annars þær sem lúta að kynningu verkefnisins og ég hlakka bara mjög til að ljúka þessari vinnu að geta kynnt þetta og tekið umræðu um það opinberlega.