Felix Bergsson, fararstjóri íslenska hópsins í Eurovision-keppninni í Tel Aviv, segist hafa verið feginn því að koma heim í gær og leggjast í eigið rúm. Hann segir Hatara frábært sviðslistafólk en hann standi ekki með fánaveifingum hópsins í stigagjöfinni, hann telji að þau hefðu þegar gert nóg. „Við höfðum rætt okkar á milli um að reyna að stíga til baka og hætta í þessari yfirlýsingagleði.“

Eurovision-fararnir íslensku eru snúin heim eftir mikið ævintýri í Eurovision-keppninni í Tel Aviv. Það fór mikið fyrir okkar fólki þar ytra en Hatari vakti mikla athygli bæði fyrir að viðra skoðanir sínar á hernámi Ísraels í Palestínu og fyrir frumlega lagasmíð og tilkomumikla sviðsframkomu. Eftir að Jon Ole Sand framkvæmdastjóri Eurovision tók hópinn á teppið fyrir að brjóta reglur keppninnar, sem kveða á um að þátttakendum er meinað að viðra pólitískar skoðanir á meðan á keppni stendur. Svo virtist sem sátt hefði náðst um að hópurinn gengi ekki lengra.

Þegar stigagjöf úr símakosningu almennings var kunngjörð sveifluðu liðsmenn Hatara fána Palestínu eins og flestir landsmenn vita, en uppátækið telst klárt brot á reglum sem gengist hafði verið við að fylgja, og vakti það hörð viðbrögð hjá framkvæmdastjórn keppninnar. Ekki er enn ljóst hverjar afleiðingarnar verða en málið verður tekið fyrir í næstu viku.

Uppákomur sem þessi ekki algengar

Felix Bergsson var fararstjóri hópsins í Tel Aviv og segist hafa verið feginn að koma heim í gær og leggjast í eigið rúm. Um afleiðingar lokaútspils Hatara, sem var að veifa fánanum án vitundar fararstjórans og starfsmanna sem voru í för með hópnum, segir Felix: „Nú bara bíðum við róleg. Við setjum okkur í rólegheitum aftur í samband við EBU og sjáum hver næstu skref verða. Mér skilst að yfirstjórn keppninnar fundi í næstu viku, þar sem þau eru að byrja að undirbúa Eurovision í Hollandi, en þá verður þetta mál tekið þar fyrir og skoðað. Þá verður ákveðið hvort gripið verði til aðgerða gagnvart okkur.“

Aðspurður hvort það séu fordæmi fyrir uppákomum sem þessum hlær hann og segir: „Já, það eru fordæmi fyrir svona óþekkt. Oft hefur verið gripið í taumana áður en kemur að keppninni en svona uppákomur eins og þessi eru ekki mjög algengar.“

Taldi að þau væru búin að gera nóg

Felix segir að þrátt fyrir allt sem á undan var gengið hafi hann ekki búist við því sem gerðist í stigagjöfinni. „Ég taldi að þau væru búin að ná sínu fram. Þau voru búin að ganga mjög langt í viðtölum og slíku, svo langt að þau voru búin að stíga yfir línur sem voru lagðar í þessari keppni, sem á að heita ópólitísk.“

Hann segir Hatara hafa nú þegar hafa gengið mjög nærri gestgjöfunum ísraelsku með því sem þau sögðu í viðtölum. „Menn höfðu ákveðið að leyfa því að standa og við höfðum rætt okkar á milli um að reyna að stíga til baka og hætta í þessari yfirlýsingagleði. En þessar yfirlýsingar stóðu allar, það vissu allir hvar þau stóðu og fyrir vikið fóru þau að fá mikla athygli sem tengdist því reyndar að miklu leyti líka hvað atriðið var sterkt, frumlegt og flott hjá þeim.“

Felix segist telja víst að íslenski hópurinn hafi aldrei áður fengið slíka athygli. „Ég hélt í einfeldni minni að þetta sem þau voru búin að gera myndi verða látið nægja. Ég veit að þau eru með mjög spennandi verkefni í farvatninu með palestínskum listamanni en það stóð til að eitt þeirra verkefna myndi líta dagsins ljós strax eftir keppnina. Það hefði verið í fínu lagi mín vegna enda væru þau þá úr okkar höndum,“ segir Felix og bætir við: „En þau kusu að gera þetta svona.“

Aðspurður hvort hann standi enn með Hatara segir hann erfitt að svara því. „Ég stend með þeim að því leyti að þau eru algjörlega frábær, frábært sviðslistafólk. Eins og ég sagði þegar ég kvaddi þau þá hlakka ég til að fylgjast með þeim á komandi árum og sjá hvað þau munu gera og ég vonast til að vinna með þeim aftur. En ég stend ekki með þeim í þessum fánaveifingum. Nei. Þar stend ég ekki með þeim.“

Munu ekki láta útspil flugfélagsins kyrrt liggja

Hópurinn lenti í óviðeigandi atviki af hálfu flugvallarstarfsmanns á heimleið þegar flug og sætisnúmer Einars, Klemensar og Matthíasar voru birt á netinu áður en hópurinn mætti á flugvöllinn. Þetta var sagt vera eins konar hefndaraðgerð eftir framferði þeirra í keppninni. „Okkur var ljóst að þarna væri á ferð einhver sem hafði á þessu þekkingu innan fyrirtækisins El Al sem gortaði sig af því að setja þau í vond sæti, í miðjusæti. Þetta var mjög hlægilegt á vissan máta en mjög alvarlegt um leið. Þetta er persónuverndarmál og örugglega flugöryggismál þannig að já, við erum að skoða hvað við gerum í því. Neytendasamtökin hafa sett sig í samband við okkur svo það getur verið að þetta fari í gegnum þau, eða El Al eða Icelandair sem bókaði þetta fyrir okkur. Við munum ekki láta þetta kyrrt ligga.“

Rætt var við Felix Bergsson í Síðdegisútvarpinu en hlýða má á innslagið í spilaranum hér að ofan.