Í tæknihorni Morgunútvarpsins á Rás 2 heyrðum við af því að í nánustu framtíð ætli Facebook að gera fólki auðveldara að kynnast með stefnumótavirkni á miðlinum. Tæknin sú hefur verið virk í Asíu og Suður-Ameríku um tíma. Og Google kynnti á dögunum Pixel 3A, ódýran snjallsíma með góðum skjá og frábærri myndavél.
Það sem hæst ber í nýjungum á Facebook á næstunni er að hópar og Messenger fá aukið vægi þar sem fólk er orðið uppteknara af persónuvernd og vill frekar hafa samskipti eftir þeim leiðum en á veggnum sínum. „Facebook ætlar að efla Messenger og gera fólki kleift að setja inn statusa þar sem birtast ekki á Facebook," sagði Guðmundur og bætti við: „Síðan ætla þeir að tengja betur saman WhatsApp, Instagram og Facebook þannig að fólk geti talað saman á milli platforma, dulkóðað, sem er nýtt og besta mál.“
Auk þessa kynnti Facebook stefnumótavirkni sem hefur verið aðgengileg á nokkrum markaðssvæðum fyrirtækisins. Mark Suckerberg tilkynnti á dögunum að henni yrði bætt við víðar. „Þeir tilkynntu nýjung sem virkar þannig að þú getur búið til lista yfir fólk sem þú ert skotinn í og ef það fólk hefur merkt þig líka - þá kemur match," sagði Gummi kankvís og bætti við:„þetta er svona eitthvað sem ég myndi aldrei segja Facebook nokkurn tímann frá.“
Það er ekkert leyndarmál að Google hefur leynt og ljóst viljað verða stærri á símamarkaðnum og sent frá sér áhugaverða síma á undanförnum árum sem hafa kannski ekki náð þeirri útbreiðslu sem fyrirtækið hefði kosið. Nú í vikunni kynnti Google nýjan síma sem á að breyta þessu og hann heitir Pixel 3A. Síminn á að vera ódýr en samt sem áður virkilega góður miðað við það verðbil sem hann verður á, þ.e. í kringum 50 þúsund krónur. „Ef þessir símar koma einhvern tímann til Íslands eða fólk fer í símaverslun erlendis eru þetta langbestu kaupin,“ sagði Guðmundur. „Þeir þurfa náttúrlega að komast inn á markaðinn og þess vegna gera þeir þessa línu.“
Guðmundur Jóhannsson talaði um tækni í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun og bar þar hæst kynningu á nýjungum frá Facebook, frekar misheppnuðum hluta Microsoft kynningar og merkilegar tækninýjungar frá Google fyrir heyrnalausa, fólk með talgalla og fleiri.