Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur boðað til þingkosninga 5. júní. Skoðanakannanir benda til þess að vinstri flokkarnir vinni sigur og myndi ríkisstjórn að loknum kosningum.
Bogi Ágústsson fréttamaður var gestur Morgunvaktarinnar í morgun. Hann segir að flokkur Rasmussen hafi tapað fylgi að undanförnu og að Danski þjóðarflokkurinn, sem er þjóðernissinnaður flokkur og stuðningsflokkur ríkisstjórnarinnar, hafi einnig tapað mjög miklu fylgi.
Sósíaldemókratar hafa aukið fylgi sitt í skoðanakönnunum og margir stjórnmálaskýrendur telja að fylgisaukninguna megi rekja til þess að flokkurinn hefur tekið upp nokkur af baráttumálum Danska þjóðarflokksins, t.a.m. þegar kemur að því að herða útlendingalöggjöfina. Margir jafnaðarmenn innan og utan Danmerkur hafa gagnrýnt flokkinn fyrir þetta og segja hann með þessu stunda lýðskrum.
Bogi ræddi einnig um stjórnarmyndunarviðræður í Finnlandi og á Norður-Írlandi. Hægt er að hlusta á Heimsglugga Boga í spilaranum hér að ofan.