Aðeins þrjár þjóðir í Evrópu losa meira af sorpi á hvern íbúa en Íslendingar. Umhverfisráðherra segir þetta í grunninn neysluvandamál og hyggst setja takmarkanir á úrgangslosun.

Hagstofa Evrópusambandsins hefur gefið út nýjar tölur um losun úrgangs í Evrópu. Tölur frá árinu 2017 sýna að Ísland er í fjórða sæti, með 656 kíló á hvern íbúa.  Ragna I. Halldórsdóttir, deildarstjóri umhverfis- og fræðsludeildar Sorpu, segir aukinn úrgang augljóst merki uppgangs í þjóðfélaginu.

Fyrirtæki þurfi að gera betur í flokkun

 „Við vitum það alveg að úrgangurinn hrundi 2008 þegar við náðum okkar hæstu hæðum og hann hefur svo síðustu 4-5 ár farið hægt og rólega upp á við aftur, við sjáum það á byggingakrönum a höfuðborgarsvæðinu að það er framkvæmdaúrgangurinn sem er að aukast," segir hún.

Heimilin geri nú betur en áður. Frá árinu 1990 hefur sífellt minni úrgangur farið til urðunar og meiri til endurvinnslu. „Fyrirtæki og stofnanir geta gert betur, þau eru að taka við sér og við þurufm að gera betur og fyrirtæki þurfa að flokka betur," segir Ragna.

Tími til að setja takmarkanir í úrgangslosun

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, segir að taka þurfi á þessu. „Ég er með í skoðun núna að setja á hreinlega flokkunarskyldu, að skylda bæði heimili og fyrirtæki til að flokka, og mér finnst alveg kominn tími til," segir hann.

Áhersla sé lögð á að takmarka urðun sem mest. „Þar erum við núna að stíga stór og mikilvæg skref, að setja á svokallaðan urðunarskatt, það er að segja að gera það dýrara að urða, og við viljum síst vera að urða, því það veldur mestri mengun og með því gerum við endurvinnslu samkeppnishæfari," hann.

Fyrirtæki beri mikla ábyrgð í framleiðsluferlinu, en allir þurfi að leggja sitt af mörkum.  „Þetta er í grunninn neysluvandamál og við þurfum að neyta betur og við þurfum að neyta minna," segir Guðmundur Ingi.