Doktor í heilsueflingu aldraðra segir að fara þurfi í átak í allsherjar heilsueflingu eldra fólks hér á landi. Félagsmálaráðherra segir það koma til greina. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis segir fjármunum sóað með því að leggja ekki meiri áherslu á stefnu í lýðheilsumálum.
Janus Guðlaugsson doktor í heilsueflingu aldraðra leggur til að meiri kraftur verði lagður í allsherjar heilsueflingu eldra fólks á borgarafundi í beinni útsendingu á RÚV í kvöld. „Það þarf að ýta inn heilsutengdum forvörnum að krafti. Við þurfum að setja af stað sjóð sem er til að efla heilsutengdar forvarnir þá í samvinnu við sveitarfélögin. Þannig að þau geti sótt í þennan sjóð,“ segir Janus.
Efla þarf heilsutengdar forvarnir um allt land að mati Janusar. „Eini möguleikinn að mínu viti til að bregðast við þessum lífsstílssjúkdómi - bæta mataræðið og vinna með þetta fólk í markvissri þjálfun,“ segir hann.
Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis tekur undir það. „Það sem liggur í orðum Janusar er að stefna okkar er kolröng. Við erum að sóa fjármunum í heilbrigðiskerfinu, með því að leggja ekki meiri áherslu á lýðheilsustefnuna,“ segir Óli Björn. „Fjárfesting í lýðheilsu er líklegasta arðbærasta fjárfesting sem þessi þjóð getur farið í.“
Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra segir átak í heilsueflingu koma til greina. „Ég vil taka Janus á orðinu. Ég vil sjá átak í þá veruna nákvæmlega eins og hann lýsti hér,“ segir Ásmundur Einar.
Janus segir að 50 milljarðar fari í rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila á ári. „Þetta verða 81 milljarðar eftir 15 ár, ef við gerum ekkert og höldum þessari þróun áfram,“ segir Janus.
Þátttakendur í borgarafundinum eru sammála um að leggja þurfi meiri fjármuni í málaflokkinn. Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara segir að níu þúsund eldri borgarar séu í fátækt. Leggja þurfi áherslu á þá sem séu í sárri fátækt. „Það eru neðstu þrjár tíundirnar sem við höfum mestar áhyggjur af. Stór hluti þeirra sem eru í sárri fátækt eru fyrrverandi öryrkjar, eiga ekki bakland eða sterkan lífeyrissjóð eða þeir eru leigjendur,“ segir Þórunn.