Ímyndaðu þér að þú sért að skoða föt á netinu og rekir augun í úlpu sem þig langar í. Þú kaupir úlpuna en færð hana hins vegar aldrei. Í staðinn sendir þú fyrirtækinu mynd af þér sem þeir „fótósjoppa“ og senda til baka. Á myndinni ert þú í úlpunni, úlpunni sem er samt ekki til í alvöru.
Þetta hljómar mögulega fjarstæðukennt en gæti samt sem áður verið framtíð tískubransans. Norska fyrirtækið Carlings hefur hafið sölu á stafrænum flíkum sem eru bara til á netinu og hafa notið töluverðra vinsælda. Flíkurnar kosta á bilinu 1500 til 5000 krónur og voru upphaflega hugsaðar fyrir áhrifavalda á Instagram sem klæðast flíkum oft aðeins einu sinni til að setja inn mynd af sér og svo aldrei aftur.
Fyrirtækið vill með þessu reyna að sporna við „fast fashion“ þróun en flíkunum fylgir ekkert kolefnisspor. Einhverjir hafa látið þær skoðanir sínar í ljós að fólk sé ekki tilbúið til að eyða peningum í fatnað sem er aðeins til á samfélagsmiðlum. Þegar litið er til tölvuleikjaheimsins virðist það hins vegar ekkert svo fjarstæðukennt að fólk eyði peningum í hluti sem eru aðeins til í stafrænum veruleika.
Carlings hafa sömuleiðis verið í samstarfi við Instagram-áhrifavaldinn Miquela, sem er einmitt ekki til í alvörunni heldur bara í stafrænum veruleika. Ef þróunin heldur áfram í þessa átt er líklegt að það ýti enn frekar undir þann óraunverulega raunveruleika sem fyrirfinnst á samfélagsmiðlum, hverjar sem afleiðingar þess verða.
Karen Björg Þorsteinsdóttir ræddi stafrænar flíkur í tískuhorni vikunnar. Hlustaðu á umræðuna í spilaranum hér fyrir ofan.