Viðbrögð við ásökunum í garð Samherja varpa ljósi á hæfni eða vanhæfni íslensks samfélags til að koma í veg fyrir að slíkt mál endurtaki sig, segir Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segist hafa á tilfinningunni að Samherji hafi barið kraft úr eftirlitsstofnunum.
Samherjamálið var meðal umræðuefna í Silfrinu í morgun. Gestir þáttarins voru sammála um mikilvægi þess að rannsaka málið og gera það fljótt og vel.
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, sagði þetta snúast um meira en bara Samherjamálið. „Þegar Samherjamálið kemur upp er eins og stjórnmálin ætli að bíða þetta af sér, línan er svona, við skulum róa okkur, láta þetta fara sinn gang í réttarkerfinu, ekkert vera æsa okkur, fara formlegar leiðir bara. En þetta er auðvitað svo miklu stærra mál. Þetta varpar ljósi á hæfni okkar eða vanhæfni til að koma í veg fyrir að svona mál komi upp.
„Maður hefur það á tilfinningunni að Seðlabankamálið hafi gert það að verkum að Samherji hafi einhvern veginn barið allan kjark úr eftirlitsaðilum, sem eiga að vera að rannsaka þetta mál,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og vísaði til rannsóknar Seðlabankans á gjaldeyrisskilum Samherja. Hann taldi of lítið gert til að rannsaka ásakanir um mútugreiðslur og önnur meint brot Samherja. Kári taldi það geta komið mönnum í koll síðar, sama hver niðurstaðan yrði.“
„Og sagan hefur nú ekkert dæmt okkur neitt sérstaklega vel af því hversu vel okkur tókst til við rannsóknir og afgreiðslu mála tengdu hruninu sem eru ennþá í dómskerfinu okkar. Við viljum fá niðurstöðu fljótt og örugglega. Það er öllum til hagsbóta,“ sagði Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Hún sagði skýrt að félagsmenn SFS ættu að fara að lögum og að neikvæðar fréttir hefðu neikvæð áhrif á atvinnugreinina.