Staða innanlandsflugs er orðin afar erfið og ólíklegt að hin svokallaða skoska leið leysi vanda flugfélaganna segir forstjóri flugfélagsins Ernis. Hann segir erfitt að keppa við aðrar samgöngur sem hið opinbera niðurgreiði.

Rekstur í innanlandsflugi hefur þyngst allnokkuð undanfarin ár. Farþegum fer fækkandi á sama tíma og kostnaður hefur aukist. Til að bregðast við þessu hafa stjórnvöld skoðað skosku leiðina svokölluðu sem felst í að niðurgreiða flugfargjöld þeirra sem búa fjarri höfuðborginni. Hörður Guðmundsson, forstjóri flugfélagsins Ernis, segir að meira þurfi að koma til. 

 „Það eru blikur á lofti ef svo má segja. Við höfum verið að bíða eftir hinni svokölluðu skosku leið undanfarið og hvað hún myndi gera fyrir okkur og við höfum svo sem trú á því að það geti komið til góða en þar er fyrst og fremst verið að hugsa um neytendastyrki. Við vitum til þess að flugfélögin í Skotlandi sem hafa verið að þjóna þessum leiðum sem eru ríkisstyrktar, þau hafa verið að fara á hausinn.“

Í samkeppni við bæjarútgerð

Þá hafi fjölgun flugfarþega í Skotlandi ekki orðið sú sem flugfélögin vonuðust til. Hörður segir að jafna þurfi samkeppnisstöðu flugsins gagnvart öðrum samgöngumátum. Í dag keppi flugfélögin við aðila fyrirtæki sem fái niðurgreiðslu frá hinu opinbera og geti því ekki boðið samkeppnishæft verð. Þar af leiðandi fækki farþegunum.

„Það eru niðurgreiddir strætisvagnar og rútur vítt og breitt um landið. Það eru niðurgreiddar ferjusiglingar vítt og breitt. Það er undarlegt núna að við skulum vera komin í samkeppni á Vestmannaeyjaleiðinni við ekki bara ríkisstyrkt heldur líka bæjarútgerð ef svo má segja.“

Stjórnvöld þurfa að koma til móts við flugfélögin, segir Hörður, svo sem með því að lækka virðisaukaskatt á eldsneyti og auka framlög til reksturs flugvalla. „Gjöld til Isavia eru orðin hlutfallslega býsna há og ríkið þarf að geta styrkt flugvallargerð og endurnýjun og viðhald flugvalla og fluglögsögutækja með þeim hætti að Isavia þurfi ekki að sækja það að stórum hluta til flugrekstraraðilanna.“