Ásmundur Friðriksson, alþingismaður, segir mikilvægt fyrir þingmenn á landsbyggðinni að geta heimsótt fólk í sínum kjördæmum. Hann spyr hvort fólk vilji að allir þingmenn séu „101-rottur“.

Ásmundur er þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi og hefur sætt gagnrýni fyrir að fara ekki að reglum þingsins og leigja sér bílaleigubíl þegar aksturinn fer yfir 15.000 kílómetra á ári. Á síðasta ári ók hann 47.000 kílómetra í starfi sínu sem þingmaður og fékk 4.600.000 krónur frá Alþingi vegna kostnaðar við aksturinn. 

Nauðsynlegt að hitta fólkið á landsbyggðinni

„Viljum við hafa þingmenn á landsbyggðinni? Viljum við hafa þingmenn sem búa austur á fjörðum eða á Norðurlandi sem sækja þingið og gera þeim kleift að búa heima hjá sér? eða viljum við bara að allir séu 101-rottur?“ sagði Ásmundur í viðtali í Kastljósi í kvöld. Hann sagði marga þingmenn á landsbyggðinni geta nýtt flug í ferðum sínum. Þeir fái líka húsastyrk í Reykjavík. Þingmenn á landsbyggðinni þurfi að hitta fólkið í kjördæminu alltaf en ekki aðeins á meðan kosningabarátta stendur yfir. 

Þegar Ásmundur ákvað að sækjast eftir sæti á Alþingi árið 2012 sagði hann við eiginkonu sína að hann yrði lítið heima á meðan hann sinnti starfinu. „Starfið er áhugamál númer eitt og ég er óþreytandi við að sinna kjördæminu og starfinu í þinginu,“ segir hann. 

Telur umfjöllun fjölmiðla ósanngjarna

Töluvert hefur verið fjallað um akstursgreiðslur til Ásmundar í fjölmiðlum eftir að þær voru gerðar opinberar á dögunum. Hann telur fjölmiðla ekki hafa gætt sanngirni í umfjöllun um málið. „Ég verð að segja eins og er að það er nú gengið nokkuð nærri manni með þetta. Fólk segir við mann að þetta sér miklu líkara einelti heldur en fréttaflutningi.“ 

Vildi leigja Alþingi bílinn sinn

Ásmundur segist hafa reynt að leigja Alþingi bifreið sína en hugmyndin hafi ekki hlotið hljómgrunn hjá skrifstofu þingsins. Hann segist ekki sætta sig við reglu um að alþingismenn taki bílaleigubíla þegar þeir hafa ekið 15.000 kílómetra. Hann segir að bílaleigubílarnir séu útkeyrðir og ekki góðir. Nú sé þó til skoðunar hjá forsætisnefnd þingsins að þingmenn geti leigt þá bíla sem þeir vilji.

Hægt er að horfa á viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.