Arndís Hrönn Egilsdóttir fjallar um líf Margueritu Duras og helstu verk í fyrsta pistli sínum um hana.
Arndís Hrönn Egilsdóttir skrifar:
Marguerite Duras var einn af virtustu og mest lesnu rithöfundum Frakklands eftirstríðsáranna. Hún var afkastamikil en eftir hana liggja tæplega fjörutíu skáldsögur og tæpur helmingur þeirra hefur verið kvikmyndaður. Auk þess skrifaði hún fjöldamörg leikrit. Hún fæddist árið 1914 í litlu þorpi í Gia Dinh, nálægt Saigon þar sem nú er Suður-Víetnam en var á þeim tíma hluti af hinu franska Indókína. Líf hennar og verk eru samofin mörgum af stórbrotnustu atburðum tuttugustu aldar og má þar nefna upplausn nýlendustefnunnar, helförina, réttindabaráttu kvenna og kynlífsbyltinguna. Það er ef til vill hægt að segja að í verkum hennar sé vanmáttur tungumálsins til að bera þessum stórviðburðum tuttugustu aldar vitni skoðaður. Vanmáttur manneskjunnar til að takast á við lífið.
Elskhuginn og alkóhólistinn
Duras hefur stundum verið kennd við nýsöguna sem kom fram á sviði stjórnmála í Frakklandi á sjötta áratugnum, þar sem formtilraunir, t.d. með frásagnarmáta og persónusköpun voru áberandi. Duras notaði sjálfa sig mikið í verkum sínum, en eftir því sem árin liðu urðu skrif hennar að einhverju leyti flóknari eða torskildari. Hún barðist lengi við alkóhólisma og fór nokkrum sinnum í meðferð og smám saman tók sjúkdómurinn meiri og meiri toll og í þónokkrum verkum sínum talar hún opinskátt um sjúkdóminn. Það gerir hún til dæmis í sínu þekktasta verki L'Amant eða Elskhuganum.
Núna sé ég að mjög ung, átján eða kannski fimmtán ára, hef ég verið komin með andlit sem var fyrirboði þess er ég síðan fékk af áfengisneyslu á miðjum aldri. Áfengið gegndi hlutverkinu sem Guði hlotnaðist ekki, einnig því að drepa mig, drepa. Ég fékk þetta brennivínsandlit áður en ég kom til sögunnar. Áfengið kom til að staðfesta það. Þetta bjó í mér, ég komst að raun um það eins og hinir, en þótt undarlegt megi virðast, löngu áður. Á sama hátt bjó girndin í mér. Fimmtán ára var ég með nautnalegt andlit og ég þekkti ekki nautnina. Það andlit leyndi sér engan veginn. Meira að segja móðir mín hlýtur að hafa séð það. Bræður mínir sáu það. Þannig byrjaði allt fyrir mér, með þessu áberandi andliti, úttauguðu, þessum augum með baugum fyrir aldur fram.
Móðirin miðlæg
Elskhuginn kom út á íslensku árið 1986 í þýðingu Hallfríðar Jakobsdóttur. Verkið fjallar um ástarsamband franskrar táningsstúlku við auðugan landeiganda og er að hluta til byggt á æviminningum Duras sjálfrar frá uppvaxtarárum hennar í Indókína á síðustu nýlenduárum Frakka. Elskhuginn er saga um forboðna ást. Saga elskenda sem mega ekki eigast. En þetta er ekki bara ástarsaga, heldur einnig uppgjör við æskuna og fjölskylduna og þá sérstaklega móðurina. Móðirin er algjörlega miðlæg og í textanum skrifar Duras: „Ég sagði honum að þegar ég var barn gekk ógæfa móður minnar mér í draums stað.“
Ég svaraði henni því til að það sem ég vildi umfram allt væri að skrifa, ekkert annað, ekkert. Hún er afbrýðisöm. Ekkert svar, lítur á mig snöggt og strax af mér aftur, yppir lítillega öxlum, ógleymanlegt. Ég verð fyrst til að fara að heiman. Það verður enn þá nokkurra ára bið á að hún glati mér, að hún glati henni, barninu sem um hér ræðir. Hvað sonunum viðkom var ekkert að óttast. En telpan þessi, hún átti eftir að fara einn góðan veðurdag, það vissi hún, henni mundi takast að komast á brott. Efst í frönsku. Rektorinn sagði við hana: dóttir yðar er efst í frönsku. Móðir mín segir ekkert, ekkert, ekki ánægð af því það eru ekki synir hennar sem eru efstir í frönsku, dræsan hún móðir mín, ástin mín, hún spyr: og í hvaða stærðfræði? Henni er svarað: það er ekki við því að búast, en það kemur. Móðir mín spyr: það kemur hvenær? Þegar hún vill, frú, er svarið.
Móðir mín ástin mín, svo ótrúlega fáránleg í fasi í baðmullarsokkunum sínum, stöguðum af Dó, jafnvel í hitabeltinu finnst henni hún þurfa að ganga í sokkum til að fullnægja skólastýruímyndinni, í ömurlegu, ólögulegu kjólunum sínum, stöguðum af Dó, hún er enn þá eins og beint út úr bóndabænum með frænkufansinum í Píkardí, hún nýtir allt til hins ýtrasta, finnst að hún verði, að maður eigi að verðskulda, skóna sína, skórnir hennar eru skakkir, hún gengur á skjön, með mestu erfiðismunum, hárið á henni er strekkt aftur og tekið saman í hnút á kínverska vísu, hún veldur okkur skömm, hún veldur mér skömm á götunni fyrir framan menntaskólann, þegar hún rennur upp að skólanum í B12-druslunni sinni mæna allir á hana, og hún, hún tekur ekki eftir neinu, aldrei, það ætti að loka hana inni, lemja hana, drepa hana. Hún horfir á mig og segir: kannski þú eigir eftir að hafa það. Sama þráhyggjan nótt og dag. Það sem gildir er ekki að ná eitthvað, heldur að komast út úr því sem er.
Fegurðin í þunglyndinu
Sturlun móðurinnar laumar sér upp í gegnum sprungur í verkinu. Hún er eins og frummynd allra sturluðu kvenanna sem byggja veröld Duras. Í verkinu Le Soleil Noir eða Svartri sól eins og verkið heitir í þýðingu Ólafar Pétursdóttur þróar fræðikonan Julia Kristeva mjög áhugaverðar kenningar sem fjalla meðal annars um ástina og þunglyndið og tengslin við listina.
Fegurðin getur jú átt upptök sín í þunglyndinu. Alveg eins og þunglyndið getur verið uppspretta þjáningar þá getur sköpunin einnig sprottið þaðan. Verkið kom fyrst út árið 1987 í Frakklandi og vakti strax feiknarleg viðbrögð. Kaflinn um verk Duras fór mjög fyrir brjóstið á sumum femínískum fræðimönnum. Kristeva segir texta Duras dæmi um hinn þunglynda texta. Hinn þunglyndi texti, heldur Kristeva fram, hverfist stöðugt um sársauka sinn. Þetta er texti þar sem ekki er hægt að syrgja, segir Kristeva, þar sem sorgin er læst inni í fangelsi þjáninganna. Henni finnst texti Duras heillaður af dauðanum. Hún lýsir þunglyndissjúklingi sem fanga tilfinninganna, ekki það að orðræður hans séu svo tilfinningaríkar, heldur þvert á móti að tilfinningin eigi ekki aðgang að máli hans, það verði mónótónískt, dautt og hljómlaust. Það sem einkennir hinn þunglynda texta Duras að mati Kristevu er til að mynda sérkennilegt tímaskyn því að sá þunglyndi er fastur í fortíðinni, hugsar stöðugt um hið liðna. Hún vill meina að það sé engin von í verkum hennar.
Kristeva heldur því fram í Svartri sól að bækur Duras leiði lesandann á vit sturlunar; greini hana ekki úr fjarlægð. Hún gengur svo langt að segja að það eigi ekki að láta bækur Duras í hendur á viðkvæmum lesendum og að textar hennar temji dauðasjúkdóminn, renni saman við hann:
...þeir standa honum jafnfætis, án fjarlægðar og án undankomu. Engin hreinsun bíður okkar í lok þessara skáldsagna skrifaðra á barmi sjúkdómsins, hvorki hreinsun batans né fyrirheit um eitthvað fyrir handan, né heldur töfrandi fegurð stíls eða háðs sem væri ánægjuuppbót fyrir að hafa afhjúpað hið illa.
Sturlun móðurinnar
Verk Duras fjalla vissulega oft á tíðum um sjálfshatur. Bækur hennar eru fullar af þunglyndum kvenpersónum sem þurrka sjálfar sig út. Maður finnur sterkt fyrir kvenleika, kvenleika sem rambar stundum á barmi geðveiki. Dauðinn og sársaukinn eru kóngulóarvefur textans. Julia Kristeva skrifar í bókinni Svört sól:
Óttinn við sturlun móðurinnar leiðir til þess að skáldkonan lætur móðurina hverfa, losar sig við hana með ofbeldi sem er ekkert minna en það sem móðirin sýnir þegar hún ber dóttur sína sem selur sig. Tortíma, virðist dóttirin sem er sögumaður í L'Amant segja, en þegar hún máir burt mynd móðurinnar kemur hún jafnframt í hennar stað. Dóttirin leysir af hólmi sturlun móðurinnar.
Allt í einu var þarna, hjá mér, einhver manneskja sitjandi í sæti hennar móður minnar, hún var ekki móðir mín (...) en það sem einmitt gerði hana að þeirri sem hún var, og ekkert gat komið í staðinn fyrir, var horfið og ég gat ekki með nokkru móti kallað það fram aftur, ekki svo mikið sem séð djarfa fyrir því. Ekkert virtist ætla að hagga þessari mynd. Ég varð vitskert með fullri vitund.