Rúmar þrjár vikur eru frá því rigningardropi féll í Kjósarhreppi. Þurrkurinn kemur illa við bændur. Áburðarkorn liggja enn óhreyfð á túnum og sprungur hafa myndast í grassverði.
Bændur í Kjós eru farnir að huga að túnum og slætti. Atli Snær Guðmundsson, bóndasonur í Káraneskoti, er einn þeirra.
Hvernig líst þér á sprettuna?
„Hún er svo sem allt í lagi miðað við árstíma. En það er náttúrulega búið að hægjast mikið á henni í þessum kulda og vindi sem er búinn að vera. Það hefur ekki rignt hér dropa í þrjár vikur eða meira. Eina sem bjargar okkur er rakinn sem kemur á nóttinni af því að það er hitamunur. Það er svo kalt á nóttunni,“ segir Atli.
Þrátt fyrir að það sé kominn mánuður síðan áburði dreift á túnin eru áburðarkornin ennþá ofan á grassverðinum og grösin eru bæði blá og orðin skrælnuð hérna í endana.
„Ég hugsa að það stefni allt í það að maður fari bara að slá og maður hefur heyrt að menn séu farnir að gera það bara áður en það brennur grasið,“ segir Atli.
Þá hafa sums staðar myndast sprungur í jarðveginum.
„Ég hef nú aldrei séð þetta áður. Það eru bara innan um allt komin gil í jarðveginn og brunnið hérna ofan á,“ seigr Atli.
Hvað heldurðu að þetta séu djúpar sprungur?
„Ég finn ekki botninn hérna þannig að ég ætla að segja að þetta séu 20 sentimetrar eða eitthvað álíka. Kannski mismunandi eftir svæðum,“ segir Atli.
Þá þarf að huga að kúnum í sólskininu.
„Það er sólarvörn og nóg af henni. Svo þurfum við að vatna þeim úti núna,“ segir Atli.
Hversu sterka sólarvörn berið þið á júgrin?
„Þrjátíu eða fjörutíu eða eitthvað svoleiðis,“ segir Atli.
Atli og fjölskylda eru með dálítið af nýrækt.
Hvað er langt síðan þið sáðuð í þessa nýrækt?
„Það eru örugglega hátt í þrjár vikur. Eins og sést það er byrjað að koma upp. Það er enginn skortur en það sjást náttúrulega áburðarkornin hérna þau sitja ofan á jarðveginum. Eins og þú sérð hérna efsta lagið. Það er náttúrulega að molna. En grasið er að koma þrátt fyrir það. Það rignir á endanum. Það gerir það alltaf,“ segir Atli.