„Kókaínneysla hefur aukist mjög mikið. Við sjáum það sérstaklega hjá ungu fólki. Meirihlutinn af fólki sem er að nota kókaín er ungt fólk,“ segir Víðir Sigrúnarsson, geðlæknir á Vogi. Hann segir að verið sé að búa til nýja neytendur fyrir kókaín og þess verði mjög vart meðal ungs fólks, undir tvítugu. Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að ástæðan fyrir stærri kókaínsendingum undanfarið en áður sé að markaðurinn hafi stækkað.
Víðir og Karl voru gestir Einars Þorsteinssonar í Kastljósinu í kvöld. Eins og fréttastofa fjallaði um í fréttaskýringu um helgina hefur kókaínsmygl til Íslands aukist mjög undanfarið. Þrjú stærstu smyglmálin sem hafa uppgötvast áttu sér öll stað í ár.
Úr engu í þrettán prósent á þremur árum
Víðir segir að mikil breyting hafi orðið á skömmum tíma. „Fyrir þremur árum síðan þá var enginn sem kom inn á Vog undir tvítugu með kókaínfíkn sem aðalgreiningu, enginn. Það er 2016. 2017 voru komin fimm prósent með kókaínfíkn sem aðalgreiningu. Í fyrra þá er þetta komið upp í þrettán prósent. Þannig að það er sprenging í notkun á kókaíni.“ Hann gerir ráð fyrir að aukningin hafi haldið áfram í ár.
„Ef þú sérð þetta á línuriti er þetta lína sem fer hraðar og hraðar upp,“ segir Víðir um kókaínfíkn. „Það er að myndast nýr hópur af fólki sem er að nota mjög alvarleg vímuefni. Það er alltaf normalisering í samfélaginu sem er að verða meiri og meiri og meiri.“
„Kókaín er mjög ávanabindandi efni. Þú þarft ekki að nota það lengi til að verða mjög háður því. Þegar þú ert með tilhneigingu til að verða fíkinn í fíkniefni er kókaín það efni sem kveikir fyrst fíknina,“ segir Víðir. Hann gefur lítið fyrir þá kenningu að margir séu á kókaíni án þess að ánetjast því svo mjög að viðkomandi missi stjórn á lífi sínu. „Kókaín er það efni sem kveikir fíkn hjá sem hafa möguleika á að fá fíkn. Það fá ekki allir fíknsjúkdóm sem nota fíkniefni. Það er mjög stór hópur, við teljum að um 20 prósent allra hafi möguleika á að móta fíknsjúkdóm sem er langvinnur alvarlegur sjúkdómur sem hefur alvarlegar afleiðingar.
Stærri markaður og stærri sendingar
Talsvert hefur verið um stór kókaínsmyglmál á árinu. Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að menn hafi margir hverjir passað sig á því að vera rétt undir hálfu kílói því þar liggi mörkin um hversu alvarlegt smyglið teljist.
Í einu þeirra mála sem komust upp á árinu reyndu tveir menn að smygla sextán kílóum af kókaíni til landsins. „Þetta tiltekna mál finnst okkur gefa tilefni til að velta fyrir sér hvort að þarna hafi menn verið að grípa til örþrifaráða, kannski þurfti, til að tryggja sína stöðu á markaði, að koma efnum hingað inn. Okkur finnst þetta mjög óvenjulegt,“ segir Karl Steinar.
Karl Steinar segir að skýringin á stærri sendingum en áður sé sennilega að markaðurinn sé stærri en áður, eftirspurnin eftir kókaíni sé meiri en áður. Að auki hafi menn aðgang að meiri fíkniefnum til að smygla til landsins en áður.
Stærsta breytingin er sú að þeir sem smygla efninu til Íslands fá það nú beint frá framleiðanda en svo var ekki áður, segir Karl Steinar, efniðer hreinna en áður þegar það er flutt inn og hægt að drýja það meira en áður. Efnið er hættulegra en áður.
Eitt að telja sig vita og annað að sanna
Lögregla telur sig vita hverjir sumir þeirra eru sem standa að fíkniefnasmygli frá Suður-Ameríku til Íslands. Aðspurður hvers vegna þeir menn eru ekki handteknir svarar Karl Steinar: „Þetta er uppbygging réttarkerfisins.“ Hann segir að eitt sé að telja sig vita eitthvað og annað sé að sanna það.
Karl Steinar segir að brotahóparnir séu allt öðru vísi nú en þeir sem lögreglan þekkti fyrir tíu til fimmtán árum síðan. Þeir séu skipulagðari og það sterkir að þeir geti keypt sér ýmsa þjónustu. Aðspurður hvort hann væri þar að vísa til spillingar og þess að glæpamenn borgi lögreglumönnum fyrir að ganga erinda sinna svaraði hann: „Ég hef verið í Suður-Ameríku, þar hefur mér verið sagt að upplýsingar um mig verði seldar.“ Þannig leki upplýsingar út úr réttargæslukerfinu.