Þingkosningar verða í Færeyjum á laugardaginn 31. ágúst. 33 þingmenn eru á færeyska lögþinginu. 9 flokkar eru nú í framboði, en fjórir flokkar hafa í gegnum söguna fengið 80-90% atkvæða.  Ríkisstjórn Þjóðveldisflokksins og Jafnaðarflokksins undir forystu Aksels V. Johannessen lögmanns úr síðarnefnda flokknum hefur nauman meirihluta og benda skoðanakannanir til að hún missi meirihluta sinn.

Snýst ekki aðeins um hægri og vinstri

Stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir eru Sambandsflokkurinn og Fólkaflokkurinn, en það er þó óvíst að þeir nái saman í stjórnarmyndun verði kosningarnar þeim í hag.

Færeysk stjórnmál eru um margt flókin og snúast ekki aðeins um hægri og vinstri, heldur einnig um afstöðuna til sambandsins við Dani og íhaldssemi eða frjálslyndi í afstöðu til jafnréttis- og trúmála. Færeyingar eru 52 þúsund talsins.

Efnahagur stendur vel um þessar mundir og allar lykilhagtölur í góðu lagi. Næga atvinnu er að fá, atvinnuleysi lítið sem ekkert og verðbólga aðeins 0,7%. Sjávarútvegur  og laxeldi afla Færeyingum mestra tekna, en ferðaþjónusta hefur einnig vaxið hratt.

Norræna félagið á Íslandi hélt opinn fund í Norræna húsinu í Reykjavík í gær (mánudag) þar sem fjallað var um væntanlegar kosningar. Petur Petersen sendiherra Færeyja á Íslandi sagði frá helstu málum sem þar ber á góma og nokkrir Íslendingar sem vel þekkja til í Færeyjum tóku þátt í pallborðsumræðum.

Þar á meðal voru Sif Gunnarsdóttir skrifstofustjóri menningarmála hjá Reykjavíkurborg og fyrrverandi forstjóri Norræna hússins í Færeyjum og Gísli Gíslason varaformaður færeysk- íslenska viðskiptaráðsins og hafnarstjóri Faxaflóahafna. Þau ræddu um færeysk stjórnmál í Speglinum.