Það er mjög athyglisvert að skoða barna - og unglingabækur vegna þess að þær segja svo mikið um samfélagið þar sem þær voru gefnar út. Hvað er æskilegt að börn og unglingar tileinki sér og hvaða aðferðir þykja álitlegastar?
Barna - og ungmennabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst afhent árið 2013. Og enn sem komið er hafa allar þjóðir hinna sjálfstæðu ríkja Norðurlandanna fengið verðlaunin nema Danir. Það gæti breyst núna því bækurnar sem Danir tilnefna eru spennandi, áhugaverðar og bráðskemmtilegar.
Myndabókin Da Mumbo Jumbo blev kæmpestor (Þegar Mumbo Jumbo varð risastór) er myndabók um stærðarhlutföll því hvað gerist ef lítill flóðhestur verður skyndilega svo risastór að tréin í skóginum koma honum fyrir sjónir sem runnar og það er engin leið að skríða upp í fangið á mömmu. Já, það gerist ýmislegt sorglegt og skrítið, fyndið og fáránlegt þegar risastór flóðhestur reynir að athafna sig í sínu venjulegu umhverfi sem auðvitað í bók sem þessari er ósköp venjulegt með húsum og girðingum, borðum og stólum. Til þess að leysa málið og gera Mumbo Jumbo aftur lítinn þarf að leggjast í langt ferðalag á fund gamalkunnrar ævintýrapersónu, nornarinnar Baba Jaga. Í því ferðalagi gengur á ýmsu en allt endar vel eins og vera ber í bók fyrir yngstu bókaormana.
Það er ekki verið að prédika eða koma ákeðnum upplýsingum um manneskjuna, lífið og samfélagið á framfæri í bókum danska teiknarans og barnabókahöfundarins Jakobs Martins Strid, sem hóf feril sinn sem skopmyndateiknari fyrir dönsk dagblöð, þar á meðal Politiken en hefur á síðustu tíu árum einbeitt sér að gerð barnabóka sem náð hafa miklum vinsældum og hafa verið þýddar á ýmis tungumál.
Það eru ekki síður myndirnar en textinn í bókinni um Mumbo Jumbo sem segja söguna, frásagnarþráðum er haldið hæfilega stuttum til að halda athygli og skemmta yngstu bókaormunum en vekja líka spurningar sem sumar gætu þvælst fyrir fullorðnum sem les þessa bók með ungum bókaormum að svara. En er það ekki bara fyrirtak? Og svo er sagan ekki búin þótt hún sér búin því sögupersónurnar sjálfar spyrja líka spurninga og gera jafnvel athugasemdir við það hvernig sagan endaði.
Upphaf skáldsögunnar Styrken eða styrkur, þróttur eða afl, eftir hina dönsku Cecilie Eken er skrifuð á klassísku formi dagbókar – eða bréfafrásagnar, sem jafnframt er vitnisburður um líf stúlkunnar Sögu Sölvadóttur frá reikistjörnunni Hvítey eftir að geimskip hennar Brimnir hefur orðið fyrir árás frá Almaz fursta og her hans frá reikistjörnunni Kameniu og ratað af braut sinni.
Sagan gerist með öðrum orðum í ókunnu sólkerfi, Karanstjörnuþokunni þar finna má fjölda reikistarna þar sem þrífst líf líkt og á jörðinni og íbúar á þessum ólíku stjörnum eiga í samskiptum út fér sérstöðu lífsins og eiginleika íbúanna á hverri þeirra fyrir sig.
Styrken mun vera fyrsta bókin í þriggja bóka seríu um lífið í stjörnuþokunni Karan og hún lofar góðu. Cecilie Eken hefur skapað heim þar sem sögu mannkyns í fortíð og framtíð er fléttað inn í hefðbundinn söguþráð um kúgun og uppreisn við ímyndaðar og afar fantastískar aðstæður. Hetjan Saga Sölvadóttir berst, meira af vilja og skyldurækni en mætti, gegn Almaz fursta og sonum hans, og ég geri ráð fyrir að hún hafi sigur, þótt baráttan sé ekki til lykta leidd í þessari fyrstu bók. Saga er ekki ofurhetja með yfirskilvitleg hæfileika heldur fremur venjuleg stelpa á unglingsaldri sem kann sumt og annað ekki, en hún er næm og eftirtektarsöm og hugsar sig fram til lausnar á hverjum þeim vanda sem hún ratar í. Stundum tekst henni vel upp en stundum mistekst henni og hún þarf að hugsa allt upp á nýtt og einstöku sinnum er hún nær því að gefast upp.
Ef marka má þessa fyrstu bók þríleiks Cecilie Eken um sambandsríkið í stjörnuþokunni Karana er hér tekið á öllum helstu þáttum sem liggja mannlegu samfélagi til grundvallar og getu manneskjunnar til að lifa í samlyndi og sátt við umhverfi sitt og sameiginlegar reglur. Af nöfnum á persónum og stöðum að dæma má ljóst vera að samfélagið á Hvítey sækir ýmislegt til norrænnar goðafræði, nöfn á fólki og öðrum reikistjörnum benda hins vegar til slavenskra tengsla eða rómansks uppruna. Ógnin sem í þessari bók, Styrken, er barist gegn virðist hins vegar ekki byggja á neinu í sambandi við uppruna heldur er hér viðskiptahagsmunir og stórveldisdraumar á ferð. Þannig vekur bókin til umhugsunar um ótal hluti í samtíma lesandans, trúmál jafnt sem heimsviðskipti, ást, vináttu og gæsku, svo eitthvað sé nefnt auk þess að vera mjög spennandi aflestrar.
Cecilie Eken hefur skrifað barna - og ungmennabækur í tuttugu og fimm ár, einkum ævintýrasögur af ýmsum toga. Með þríleiknum sem gerist í Karanstjörnuþokunni fléttar hún sama goðafræði, furðusögum og vísindaskáldsögum með léttum og leikandi hætti.