Útlit er fyrir einstaklega góða berjasprettu í sumar, að mati Sveins Rúnars Haukssonar, berjaáhugamanns og læknis. Einmuna veðurblíða hefur verið víða um land og hitamet hafa fallið og segir Sveinn það hafa góð áhrif á berjasprettuna. Hann ætlar að verja þremur vikum af fjögurra vikna sumarfríi í berjamó og segir berjatínsluna vera hugleiðslu.
Sveinn sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að stundum skammi fólk hann fyrir bjartsýnina en hann spyrji á móti hvernig blessað berjalyngið geti annað gert en sýnt sínar bestu hliðar eftir góðviðrið í sumar. „Hér erum við búin að horfa upp á hvert hitametið falla, jafnvel dag eftir dag. Ef við megum einhvern tíma vera bjartsýn þá er það núna.“ Samkvæmt niðurstöðum íslenskrar rannsóknar í Dýrafirði spretta aðalbláberin best þegar meðalhitastigið í maí er hátt. Það geti þó ýmislegt annað haft áhrif á sprettuna en lítið sé vitað um hvað það er, segir Sveinn. Til að mynda hafi verið þurrt í sumar og sumir hafi áhyggjur af áhrifum þess á berjasprettuna.
Veðrið síðasta sumar er íbúum á suðvesturhorninu eflaust enn í fersku minni. Þá fór Sveinn víða um landið að tína ber en hafi verið alger berjabrestur í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. „Ég fer bara þangað sem ég þarf að fara til að komast í góð ber.“ Hann hefur til dæmis tínt á Austurfjörðum, Vestfjörðum, Ströndum og í nágrenni Reykjavíkur. Hann langar austur í sumar en á ekki von á að fara þangað fyrr en nokkuð er liðið á berjatíðina. „Ég tek alveg þrjár vikur af mínu fjögurra vikna sumarfríi í þetta.“
Sveinn segist ekki vera neinn dugnaðarforkur við tínsluna og reynir að fá með sér duglegt berjatínslufólk enda sé honum strítt yfir því að hann geri meira af því að tala við berin og synja fyrir þau en að tína þau. „Það er bæn og hugleiðsla því að er svo mikið þakklæti sem kemur í hugann þegar maður mætir þessum gjöfum og þetta eru svo dásamlegar stundir sem maður á í berjamó. Það er bara fátt dásamlegra en að fara og vera í berjamó.“
Sveinn kveðst ekki alltaf finna berin strax og að það geti tekin augun svolítinn tíma að venjast í berjamó. Fyrst sjái hann varla nein ber en þegar á líður sér hann þau í órafjarlægð.