Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, segir að það sé komin niðurstaða milli stjórnarflokkanna um áframhaldandi stjórnarsamstarf. Þetta sagði Sigurður Ingi að loknum fundi með forsætisráðherra. Samkvæmt heimildum er m.a. samið um þingkosningar í haust.
Hann vildi ekki svara því hvort hann tæki við stóli forsætisráðherra. Boðað hefur verið til þingflokksfunda klukkan 18. Að þeim loknum verður almenningi tilkynnt um niðurstöðuna á blaðamannafundi.
Sigurður Ingi var fámáll að loknum fundinum í stjórnarráðshúsinu áðan. „Bara fínn fundur,“ sagði Sigurður Ingi. Þingmönnum stjórnarflokkanna verði kynntar niðurstöður viðræðnanna. Þingflokksfundirnir verði væntanlega um klukkan sex og um sjöleytið verði almenningi kynnt niðurstaðan. Sigurður Ingi vildi ekki svara því hvort hann tæki við sæti forsætisráðherra. Samkvæmt heimildum fréttastofu var m.a. samið um að ganga til þingkosninga í haust en þingkosningar eiga næst að fara fram 2017.
Sigurður Ingi og Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknar funduðu með Sigmundi Davíð Gunnlaugssonar, formanni Framsóknarflokksins, eftir fund þeirra með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins og Ólöfu Nordal, varaformanni.