„Ég er sigri hrósandi og ótrúlega glöð. Það eru mín fyrstu viðbrögð og hreinu og sönnu,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, eftir að niðurstaða Félagsdóms lá fyrir. Niðurstaða dómsins varð sú að boðun verkfallsins sem fram fer á mogun er lögleg og hefst því verkfall meðal hótelþerna á morgun.
„Við erum að fara í verkfall á morgun, kvennaverkfall,“ sagði Sólveig Anna og bendir á að þetta sé fyrsta verkfallið sem Efling fer í. „Þetta er kvennaverkfall. Haldið á alþjóðlegum baráttudegi verka- og láglaunakvenna. Þetta er söguleg staðreynd og ég hlakka afskaplega mikið til á morgun.“
Í tilkynningu er haft eftir Viðari Þorsteinssyni, framkvæmdastjóra Eflingar, að það sé ekki jákvætt að notast við lagaklæki til að koma í veg fyrir að fólk geti nýtt lýðræðisleg réttindi sín. Niðurstaða dómsins staðfesti þau réttindi. „Ég held að allir sem kynntu sér greinargerðir okkar og SA í þessu máli hafi séð það í hendi sér að lítill fótur var fyrir málatilbúnaði SA,“ sagði Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar.