Í Berlín hefur verið ákveðið að loka öllum leikhúsum fram yfir páska vegna COVID-19 faraldursins. Þetta þýðir meðal annars að leikkonan Sólveig Arnarsdóttir sem býr og starfar þar mun frumsýna leikrit í Volksbühne þann 19. mars fyrir tómum sal.
„Nei nei, við höldum ótrauð áfram og leikum frumsýningu fyrir tómu húsi, og höldum svo sýningunni við og verðum með rennsli fyrir tómum sal, leikum út í tómið, þangað til þessu samkomubanni verður aflétt,“ segir Sólveig létt á brá þegar Síðdegisútvarpið sló á þráðinn til hennar. Yfir allt Þýskaland hefur verið lagt blátt bann við samkomum með fleiri en 1000 manns og skýr tilmæli um að færa mörkin neðar. „Í Berlín eru mörkin núna við 500 sem þýðir að öll leikhús, óperur og sinfónían geta ekki haldið sinni starfssemi áfram. En ef að þessu verður aflýst er hægt að opna leikhúsið aftur eftir páska og þá eru sýningarnar tilbúnar.“
Það hlýtur að vera nokkuð sérstakt fyrir leikara að sýna verk fyrir enga áhorfendur. „Auðvitað verður þetta dálítið hlægilegt. En þetta eru bara mjög sérstakir tímar. Og auðvitað lítum við bara á þetta sem fleiri æfingar, maður leikur og leikur líka bara fyrir leikstjóra og fjóra aðra aftur og aftur.“ Hún segir líka mikilvægt í stóru leikhúsi eins og Volksbühne að ekki verðir rask á starfseminni. „Það vinna yfir 600 manns, og þetta er risastór skipulagsmaskína. Þetta er bara keyrt svona áfram til að allt fari ekki í handaskolunum.“ Þrátt fyrir lokunina mega leikarar þó bjóða mökum og nánum vinum ef þau sitja ein með langt á milli sín. „Þá fáum við stöku klapp, og komum og hneigjum okkur,“ segir Sólveig hlæjandi.
Andri Freyr Viðarsson og Hafdís Helga Helgadóttir ræddu við Sólveigu Arnarsdóttur í Síðdegisútvarpinu.