Sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu fara nú yfir nýja rýmingaráætlun. Hún verður nýtt ef hamfarir dynja yfir, eins og eldgos, stórbrunar eða mengunarslys. Samkvæmt áætluninni verða fjöldahjálparstöðvar í Smáralind, Laugardalshöll, Smáranum, Kórnum, Hörpu og Kaplakrika. Á árum áður voru rýmingarstöðvar í skólum enda voru þessi stóru hús ekki risin þá.

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu og framkvæmdastjóri Almannavarnadeildar höfuðborgarsvæðisins, segir ekki hægt að skipuleggja viðbrögð við öllu mögulegu sem getur gerst, heldur verði að taka hverju verkefni með opnum faðmi og vinna úr því. Rætt var við hann í Samfélaginu á Rás 1 í dag. 

Flytja fólk úr varhugaverðum aðstæðum

Í fjöldahjálparstöðvum er fólk skráð, fær öruggt skjól, mat og fatnað samkvæmt skipulagi Rauða krossins. Í rýmingaráætluninni sem nú er til umfjöllunar hjá yfirvöldum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu segir að tilgangur hennar sé að forða fólki á svæðinu úr varhugaverðum aðstæðum og flytja það á milli borgarhluta eða hverfa ef aðstæður krefjast. Hún verður virkjuð komi til þess að almannavarnaástands. 

Jón Viðar segir að áætlunin sé að stóru leyti byggð á sambærilegu, eldra plaggi. Margir hafi komið að undirbúningnum, svo sem Rauði krossinn, lögregla og slysavarnafélög. 

Yfir 300.000 manns gætu verið á svæðinu

Svæðið nær frá botni Hvalfjarðar og suður fyrir Straumsvík og til Krýsuvíkur. Íbúarnir þar eru um 220.000. Stundum er fjöldi ferðamannanna helmingur af íbúafjöldanum, þriðjungur og jafnvel tvöfaldur. Því gætu verið yfir 300.000 manns á svæðinu þegar hamfarir dynja yfir. 

Þegar hefur þurft að nota rýmingaráætlun í Reykjavík, þegar rýma þurfti íbúðahverfi í nágrenni við Hringrás þegar stórbruni kom upp árið 2004.  Þá voru nokkur hundruð manns flutt í burtu um nótt. Jón Viðar segir náungakærleikann alltaf skipta miklu máli við aðstæður sem þessar, að fólk passi upp á nágranna sína. Þá rifjaði hann upp þegar kviknaði í Seljaskóla í Breiðholti á dögunum, þá kom íbúi gangandi með nýbakaðar pönnukökur og gaf slökkviliðsmönnum. „Fólk er tilbúið að gera allt sem það mögulega getur þegar eitthvað bjátar á. Pönnukökurnar voru meira hjartanæring en magafylli.“

Jón Viðar hefur þegar fundað með bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði og með borgaryfirvöldum í Reykjavík og segir að ýmsar góðar ábendingar hafi komið fram þar.