Skúli Mogensen, forstjóri WOW, útilokar ekki uppsagnir hjá fyrirtækinu. „Það má vera,“ sagði Skúli þegar fréttastofa leitaði viðbragða hjá honum eftir starfsmannafund hjá fyrirtækinu í morgun. Engar uppsagnir voru þó ræddar á fundinum. Skúli á í viðræðum við annan aðila um kaup á félaginu en Skúli vill ekkert tjá sig um þær viðræður, hversu langt þær eru komnar eða við hvern hann er að ræða. Tilkynnt var í morgun að hætt hefði verið við kaup Icelandair á félaginu.
Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW, sagði rekstur félagsins tryggðan en vildi ekki segja hversu lengi. Fjármálastjóri fyrirtækisins, Stefán Sigurðsson, sendi starfsfólki tölvupóst í gær, og hét því að starfsfólk fengi laun sín greidd um mánaðarmótin.
Starfsfólk vildi ekki tjá sig við fréttastofu þegar það kom af fundinum en sagði þó að uppsagnir hefðu ekki verið ræddar á fundinum.
Gengi bréfa í Icelandair hefur lækkað gríðarlega eftir að tilkynnt var að hætt hefði verið við kaupin. Um klukkan korter í ellefu nam lækkunin um 10 prósentum.