„Hið persónulega er pólitískt og afþreyingin og popptónlistin er það líka,“ segir Marta Sigríður Pétursdóttir sem rýnir í Homecoming, heimildarmynd sem skrásetur tónleika poppstjörnunnar Beyoncé á Coachella síðasta sumar.


Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:

Homecoming er nýjasta gjöf ofurstjörnunnar Beyoncé til aðdáenda sinna, tónleika- og heimildarmynd sem fjallar um sögulega stórtónleika söngkonunnar á Coachella tónlistarhátíðinni í Kaliforníu á síðasta ári en Beyoncé var fyrsta svarta konan til þess að vera aðalatriði (eða „headliner“) hátíðarinnar. Homecoming var frumsýnd á Netflix streymiveitunni 17. apríl og samhliða kom út tónleikaplata sem er aðgengileg á Spotify. Queen Bey blessar „the beyhive“, eins og aðdáendur hennar og fylgjendur eru kallaðir. Hún er sannarlega býflugnadrottningin sem ríkir yfir býflugnabúinu sínu. 

Myndin fangar þá átta mánuði sem fóru í að undirbúa og æfa fyrir tónleikana og er leikstýrt af stórveldinu, Beyoncé sjálfri, sem sýnir það og sannar í myndinni að hún er listamaður sem hefur fullkomna stjórn yfir sköpunarverki sínu, henni tekst að vera bæði persónuleg, án þess þó að segja of mikið, rammpólitísk og svo dansa og syngja eins og henni einni er lagið en hún er óumdeilanlega ein stærsta poppstjarna heims og íkon í dægurmenningunni.

Homecoming er, líkt og Lemonade-albúmið hennar frá 2016, epískt ferðalag um menningarheim og sögu svarts fólks í Bandaríkjunum. Í Homecoming líkt og Lemonade fara saman mynd og hljóð, vísanir í og raddir mikilvægra hugsuða, listamanna og leiðtoga svartra í Bandaríkjunum heyrast og í Homecoming ramma þessar mikilvægu vísanir inn allt sjónarspilið þar sem hvert smáatriði er þaulhugsað og þrungið merkingu. Homecoming er einnig óður til HBCU framhalds- og háskólanna sem voru settir á fót fyrir svarta Bandaríkjamenn til þess að tryggja þeim aðgengi að menntun í landi aðskilnaðarstefnu, kynþáttafordóma og misréttis.

Á sviðinu með Beyoncé eru allan tímann brassband, kór, dansarar og sviðslistafólk, búningarnir vísa í þessar hefðir Homecoming-fagnaðarins, sem er eins konar gleðiganga eða hátíð sem fagnar nemendum og skólunum. Hefði Beyoncé ekki alist upp í tónlistarheiminum og orðið að stórstjörnu hefði hún sjálf farið í HBCU skóla eins og faðir hennar gerði, en á Coachella, eða Beychella eins og hátíðin var endurskírð, býr hún einfaldlega til sitt eigið Homecoming eins og henni einni er lagið og það er hvergi slegið af á þeim 137 mínútum sem myndin varir. 

Svartur femínismi er leiðarstefið

Beyoncé hleypir áhorfendum eins nálægt sér og hún vill sjálf enda er hún alltaf við stjórnina. Hún talar meðal annars um erfiða meðgöngu og fæðingu tvíburanna sem hún gekk með 2017 og segir frá hversu vandasamt það er að samræma barnauppeldi og starfsframa. Einnig segir hún frá því gríðarlega líkamlega álagi sem fylgdi meðgöngu tvíburanna og þeim mikla aga sem hún beitti sig eftir fæðinguna til þess að komast í form fyrir Coachella. Flestir vita líka að Lemonade platan fjallar meðal annars um framhjáhald eiginmanns hennar Jay-Z og við erum þátttakendur í reiðinni, særindunum en líka fyrirgefningunni. Leiðarstefið er þó alltaf svartur femínismi og Beyoncé heiðrar þá brautryðjendur, hugsuði og baráttufólk fyrir réttindum svartra sem fóru á undan henni. Hún tekur stöðu sinni á heimssviðinu sem ein stærsta stjarna heims aldrei sem gefnum hlut og hún lætur okkur heyra það. Hún er heldur ekki óhrædd við að láta skína í reiði sína og kraft sem knýr hana áfram. Hún þóknast engum nema sjálfri sér. 

Í Homecoming er hugvitsamlega klippt á milli tónleikanna og undirbúningsferlisins samhliða vísunum og tilvitnunum í mikilvæga svarta hugsuði og listamenn þeirra á meðal Mayu Angelou, Toni Morrison, Malcolm X, Alice Walker og Ninu Simone. Það er notast við ólíka myndatökustíla og áferð, það er einnig klippt á milli tónleikanna tveggja sem fóru fram á Coachella þar sem eini munurinn voru búningarnir, en þau eru annars vegar í gulu og hins vegar bleiku. Inn á milli söngatriða Beyoncé er sýningin brotin upp með stórkostlegum dansatriðum þannig að úr verður heljarinnar veisla. Enda voru tónleikarnir og öll sýningin útfærð af Beyoncé með það í huga að þetta yrði að endingu að kvikmynd.

Popptónlistin er pólitísk

Það eru ákveðin stíleinkenni á myndinni sem minntu mig á eldri kvikmyndir Spike Lee sem fanga ákveðna nostalgíu, eins konar stæling á stælingu í póstmódernískum skilningi. Rödd Beyoncé og frásögn af ferlinu og þeirra áhrifavalda sem hafa mótað hana er spiluð líkt og af gömlu segulbandi, alveg eins og við erum vön að heyra raddir úr fortíðinni í heimildarmyndum. Beyoncé er að skrifa sjálfa sig inn í söguna, réttinda- og baráttusögu svartra, og hún er meðvituð um mikilvægi þess að skilja eftir sig ummerki, heimildir. Henni tekst enn eina ferðina að ýta listinni og popptónlistinni ennþá lengra en áður hefur verið gert. 

Fræðimaðurinn Kevin Allred sem hóf að kenna áfangann „Politicizing Beyoncé“ eða Pólitík Beyoncé við Rutgers Háskólann árið 2010 skrifar um Homecoming á feminíska vefritið Bitch Media að myndin og þær ríkulegu vísanir og pólitík sem þar sé að finna geri hana að einu mest spennandi verki Beyoncé hingað til. Það sem gerir þetta spennandi er fjöldinn sem Beyoncé nær til og það vald sem hún hefur og áhrifamáttur hennar í dægurmenningunni sem er að sjálfsögðu samofin öllum öðrum þáttum samfélagsins. Hið persónulega er pólitískt og afþreyingin og popptónlistin er það líka. 

Lengi lifi Queen Bey!