Fjöldi Íslendinga nýtur jólanna á Kanaríeyjum en þeir þurfa ekki að óttast að fá þar ekki hefðbundinn íslenskan jólamat. Á Íslendingabarnum Nostalgíu á eyjunni Tenerife stendur íslensk fjölskylda vaktina og heldur skötu- og jólaveislur í tuttugu og tveggja stiga hita.
„Það er svolítið skrítið að vera í 22 stiga hita og vera að servera skötu og svona,“ segir Ingibjörg Sara Sævarsdóttir, sem starfar á Nostalgíu. Sævar Lúðvíksson þarf að hugsa sig um stutta stund þegar hann er spurður hvort einhverjir ókostir fylgi því að búa á Tenerife. En svarið er einfalt þegar það loksins kemur: „Nei. Hugsið ykkur, stuttbuxurnar virka alla daga vikunnar. Það getur ekki klikkað.“