Hópmálsókn gegn Icelandair er í undirbúningi af hálfu flugliða sem telja sig hafa orðið fyrir skaða vegna skertra loftgæða um borð.
Dæmi eru um að flugliðar hafi leitað á sjúkrahús vegna óþæginda sem þeir telja stafa af flugi.
Í september í fyrra var greint frá því að allir flugliðar í flugi Icelandair frá Edmonton í Kanada hafi farið á sjúkrahús vegna óþæginda, höfuðverks og þreytueinkenna. Jens Þórðarson framkvæmdastjóri flugrekstrar hjá Icelandair sagði þá að stífla í loftflæði hafi verið líklegasta skýringin á óþægindunum. Skipt hafi verið um síur sem reynst hafi svolítið skítugar. Framkvæmdastjórinn staðfesti að félagið viðurkenndi ekki veikindin sem afleiðingu vinnuslyss. Í fréttum þá kom einnig fram að í ágúst í fyrra hafi fjórar flugfreyjur veikst og þrjár þeirra verið óvinnufærar lengi. Þá kom fram að Rannsóknarnefnd samgönguslysa væri að rannsaka mál af þessum toga.
Nú er í undirbúningi hópmálsókn á hendur Icelandair vegna mála af þessu tagi. Óðinn Elísson lögmaður staðfestir í samtali við fréttastofu að verið sé að skoða slíkt fyrir hönd nokkurra skjólstæðinga. Málið sé á viðkvæmu stigi og verið að afla gagna. Berglind Hafsteinsdóttir formaður Flugfreyjufélags Íslands sagðist ekki geta tjáð sig um málefni einstakra félagsmanna.