Barnaverndarstofa fordæmdi vinnubrögð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur í máli tveggja systkina í fyrra og hefur enn til skoðunar að áminna nefndina vegna ítrekaðra brota á reglum og stöðlum um vinnslu barnaverndarmála.

Kornið sem virðist hafa fyllt mælinn er mál systkina sem komið var fyrir í fóstri hjá reyndum fósturforeldrum á Vesturlandi undir lok árs 2016. Þremur mánuðum síðar voru þau fjarlægð nær fyrirvaralaust, og send á sitt hvort heimilið.

Samkvæmt athugun Barnaverndarstofu var undirbúningur fóstursins óviðunandi og hún fordæmir málsmeðferðina við aðskilnað systkinanna. Fósturforeldrarnir hafa rúmlega tuttugu ára reynslu og hafa aldrei lent í öðru eins.

„Ég hefði aldrei trúað því að nokkur barnavernd ynni svona. Ég held að við höfum hingað til verið fyrst til að taka upp hanskann fyrir Barnavernd, því þetta eru mjög erfið og viðkvæm mál. Það er ekkert verið að leika sér að því að taka börn frá foreldrum. Það er ekkert verið að leika sér með líf barnanna. En þarna fékk maður það bara á tilfinninguna að það væri akkúrat það sem væri verið að gera,“ segir Aðalbjörg Þórólfsdóttir fósturmóðir.

Í athugasemdum Barnaverndarstofu segir að „…verulega hafi skort á að málsmeðferðarreglum barnaverndarlaga hafi verið fylgt við vinnslu málanna. Leiddi það m.a. til þess að alvarleg mistök voru gerð við vinnslu þeirra“.

Afdrifaríkar ákvarðanir um framtíð barnanna hafi verið byggðar á mjög veikum grunni.

„Fordæmir Barnaverndarstofa slíka málsmeðferð og skort á undirbúningi við flutning [barnanna] milli fósturheimila þar sem slík vinnubrögð eru til þess fallin að valda börnum alvarlegum skaða…“

Aðalbjörg segir að þetta sé spurning um að farið sé að lögum og að hlutirnir séu faglega og rétt unnir. „Þarna var það því miður ekki. Það þarf einhver að þora að stíga fram og segja: Við getum ekki unnið svona, svona má ekki koma fyrir aftur,“ segir hún.

Nánar verður fjallað um málið í fréttaskýringaþættinum Kveik, strax á eftir Kastljósi og Menningu.