Þingmaður Pírata segir að skipun Ásgeirs Jónssonar í starf seðlabankastjóra hafi verið ótímabær. Skipunin veki ekki traust vegna tengsla Ásgeirs við bankahrunið.
Þingmaður Pírata segir að skipun Ásgeirs Jónssonar í starf seðlabankastjóra hafi verið ótímabær. Skipunin veki ekki traust vegna tengsla Ásgeirs við bankahrunið.
Ásgeir Jónsson, hagfræðingur og forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, var í gær skipaður seðlabankastjóri af forsætisráðherra Íslands. Hann tekur við starfinu 20. ágúst.
Þrátt fyrir ítarlegan rökstuðning hæfisnefndarinnar og forsætisráðuneytisins hefur skipun Ásgeirs verið gagnrýnd. Hann var á árunum fyrir hrun forstöðumaður greiningardeildar og aðalhagfræðingur Kaupþings og síðar Arion banka. Ummæli hans frá því í maí 2008 hafa verið rifjuð upp í dag en þar segir Ásgeir umræðu um að bjarga þurfi bönkunum þremur hysteríu og segir að bönkunum vegni þokkalega.
Á meðal þeirra sem hafa vakið máls á skipun Ásgeirs er Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. Hann geti ekki dregið mat hæfnisnefndar í efa. Hann telur mikilvægt að skipun seðlabankastjóra sé skoðuð í stærra samhengi.
„Persónulega og faglega hef ég engan efa um það svo sem þar sem það var búið að skila slíku mati á umsækjendur en við erum með stærra samhengi en það í þessum málum þar sem að við erum ennþða að glíma við áhrif eftirhrunaráranna.“
Þegar enn eigi eftir að gera upp hrunárin sé skipunin ótímabær. „Hvað þá þann leikenda sem var kannski svolítil klappstýra á þeim tíma.“
„Ég tel það vera ekki traustvekjandi fyrir seðlabankann og stjórnvöld yfirleitt að þessi staða sé komin upp núna, að það sé buið að ráða á þennan hátt í stöðu seðlabankastjóra,“ segir Björn.
Fulltrúar annarra þingflokka sem fréttastofa ræddi við í dag gera ekki athugasemdir við skipun Ásgeirs í embættið.