Lina Bengtsdotter er ungur og upprennandi glæpasagnahöfundur frá Svíþjóð. Hún var heiðursgestur á glæpasagnahátíðinni Iceland Noir 4. desember. „Í sögunum mínum er persónum ekki skipt í gerendur og þolendur,“ segir hún. „Við erum öll þolendur. Lífið er flókið og það er margt sem liggur á bak við það sem við gerum.“

Iceland Noir er alþjóðleg glæpasagnahátíð sem var fyrst haldin 2018 og stefnt er að því að verði haldin annað hvert ár. Næsta hátíð verður því í nóvember 2020 en til að halda íslenskum glæpasagnaaðdáendum við efnið var ákveðið að blása til glæpakvölds í ár þar sem áhugasömum gafst tækifæri til að heyra höfunda ræða saman um glæpasögur.

Sérstakur gestur hátíðarinnar var Lina Bengtsdotter, ungur glæpasagnahöfundur sem gaf út fyrstu bók sína, Annabelle, árið 2017. Bókin hefur fengið gífurlega góðar viðtökur, hún fékk verðlaun fyrir frumraun ársins í Svíþjóð og hefur komið út í 22 löndum, þar á meðal á Íslandi, en í ár kom út íslensk þýðing Bryndísar Cortes Andrésdóttur.

Sagan segir frá lögreglukonunni Charlie Linder, ungri konu á uppleið í lögreglunni í Stokkhólmi, svo lengi sem henni tekst ekki að klúðra málunum en hún drekkur ótæpilega og glímir við fortíðardrauga. Sagan hefst þegar hún er send ásamt félaga sínum til smábæjarins Gullspång, þar sem hin sautján ára gamla Annabelle er horfin.

Í skáldsögunni er ekki aðeins rannsókninni á hvarfi Annabelle lýst, heldur einnig rannsókn Charlie á eigin fjölskyldsögu. Kemur í ljós að Charlie ólst upp í smábænum Gullspång og flúði þaðan á unglingsaldri. Móðir Charlie var drykkfelld, erfið kona, og smátt og smátt kemur í ljós að dularfull tengsl eru á milli fjölskyldu Charlie og fjölskyldu Annabelle sem nú er horfin. 

Lina Bengtsdotter lýsir öllum sögupersónum sínum af mikilli næmni og samúð. „Ég hef alltaf haft áhuga á vináttu kvenna og systralagi og sambandi mæðra og dætra,“ segir hún, „þetta er ekki eitthvað sem ég skipulegg fyrir fram en eftir á er ég að fjalla um þetta. Konurnar mínar eru greindar, þær hafa gengið í gegnum margt og lifað það af. Í sögunum mínum er persónum ekki skipt í gerendur og þolendur. Við erum öll þolendur. Lífið er flókið og það liggur margt á bak við það sem við gerum.“

Lina segir að Charlie Linder, aðalsöguhetja bókarinnar, hafi birst henni skyndilega. „Ég bjó hana ekki til. Eftir á þá sé ég að hún líkist konunum í fjölskyldunni minni. Hún hefur ekki áhyggjur af því hvað öðrum finnst. Hún er sterk en einnig breyst því hún glímir við andleg vandamál. Hún er kvíðin og stundum þunglynd en hún er sterk. Mér finnst hún ekki furðuleg en þegar ég hitti lesendur í fyrsta skipti komst ég að því að fólki finnst hún afar furðuleg. Ég held að fólki myndi ekki finnast hún furðuleg ef hún væri karlmaður en það er ekki eins samfélagslega samþykkt að hegða sér eins og Charlie gerir fyrst hún er kona.“

Lina bendir á að konur séu oft fjarverandi í samfélagsumræðunni og stundum hverfi þær algjörlega. Þess vegna vill hún segja sögur kvenna í bókum sínum. „Ég er femínisti og í bókunum mínum leyfi ég ímyndunaraflinu að ráða för og segja sögur þessara kvenna. Ég á þrjár dætur sjálf og stærsti ótti minn er að eitthvað komi fyrir þær. Kannski er ég að rannsaka þennan ótta í verkum mínum.“ 

Fyrstu tvær bækur Linu Bengtsdotter hafa notið mikilla vinsælda og hún vinnur nú að þeirri þriðju.