Ólíkar skoðanir koma fram í þeim umsögnum, sem þegar hafa verið gerðar, um tillögur að þjóðgarði á miðhálendinu. Framkvæmdastjóri Samorku segir að áður en þjóðgarður verður útfærður verði að liggja fyrir stefna um nýtingu orkuauðlinda.

Stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu er í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar en fyrri ríkisstjórn hafði látið gera skýrslu um sama efni. Þjóðþekkt fólk og fulltrúar hagsmunasamtaka komu saman fyrir þremur árum og undirritaðu þau viljayfirlýsingu um stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Núverandi umhverfis- og auðlindaráðherra sagði þegar hann tók við að hálendisþjóðgarður væri eitt af forgangsverkefnunum. 

Nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu, sem skipuð var í apríl í fyrra, hefur leitað samráðs í þrígang á samráðsgátt stjórnvalda um verkefnið. Nú er leitað umsagna um textadrög um mörk þjóðgarðsins og fleira. 

Miðhálendið nær yfir um 40% af flatarmáli landsins og mun vera eitt stærsta samfellda svæðið í Evrópu þar sem ekki er föst búseta. Nefndin leggur til að mörk þjóðgarðsins miðist við þjóðlendur og þegar friðlýst svæði eins og Vatnajökulsþjóðgarð. Innan þjóðgarðsmarkanna eru hins vegar nokkur orkuvinnslusvæði Landsvirkjunar. 

Borist hafa átta umsagnir um þennan þriðja hluta en umsagnarfrestur rennur út 13. ágúst. 46 umsagnir hafa borist á fyrri stigum. 

Landvernd og Landsvirkjun sammála 

Landvernd er í umsögn sinni mjög ánægð með áformin og tillögurnar en leggur meðal annars til að mörk þjóðgarðsins verði víkkuð út og að virkjanir og lón verði utan þjóðgarðsins. 

Landsvirkjun vill líka að öll virkjunarsvæði Landsvirkjunar verði utan þjóðgarðsins og bendir á að á hálendinu séu vatnsmiðlanir fyrir níu aflstöðvar Landsvirkjunar sem anni um tveimur þriðju hlutum af orkuþörf landsmanna. 

Telur að banni vöxt og viðhald virkjana

„Það sem við höfum verið að benda á í þessum drögum nefndarinnar að hér er hugmyndin í rauninni að banna vöxt og viðhald núverandi virkjana á hálendinu, nýtingu nýrra orkulinda og flutningsmannvirkja á 40 prósentum landsins,“ segir Páll Erland framkvæmdastjóri Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja. 

Hann segir að samtökin séu ekki á móti stofnun miðhálendisþjóðgarðs en þarna séu framtíðarnýtingarmöguleikar vatnsafls og jarðvarma og því þurfi að hafa samráð við orkustefnunefnd og klára þá vinnu. 

„Það er helst gert með góðri orkustefnu fyrir Ísland, sem er í gangi, og við teljum að sé mikilvægt að fá niðurstöðu á. Áður en þetta verður gert? Áður en þetta verður gert samkvæmt þessari útfærslu, já.“