Helga Björk Jónsdóttir, sem búsett er í Hong Kong, segir íbúa þar ekki treysta stjórnvöldum í Kína. Hún segir að atburðirnir í gær hjálpi mótmælendum ekki, en hún skilji reiði og uppgjöf ungs fólks í borginni.
Helga Björk var í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 og sagðist óttast að stjórnvöld nýttu sér það að mótmælin hafi farið úr böndunum og að þau geri lítið úr andspyrnunni. „Það sem gerðist í gær var ekki sniðugt, þetta hjálpar ekki mótmælendum. Á sama tíma skilur maður samt alveg að þetta er mest ungt fólk. Það er hrætt og reitt og það er ákveðin uppgjöf í því að því finnst friðsamleg mótmæli einhvern veginn ekki skila neinu. Og það er auðvitað dálítið hættulegt þegar það gerist af því að þá sýður stundum upp úr. Sögulega séð hafa mótmæli í Hong Kong alltaf verið fremur kurteis ef svo má að orði komast."