Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra, segir að skerpa þurfi á reglum um að almenningur njóti forgangs ef rafmagn er skammtað á Íslandi. Starfshópur á vegum ráðuneytisins vinnur nú að skýrslu um orkuöryggi.

Fram kemur í nýrri skýrslu Landsnets að raforkunotkun muni aukast meira á næstu þremur árum en áður var reiknað með, aðallega vegna aukinnar notkunar í gagnaverum. Forstjóri Landsnets sagði í fréttum í gær að ef ekki verði dregið úr rafmagnsnotkun eða meira framleitt af því gæti þurft að skammta raforku innan þriggja ára. Langstærstur hluti raforku á Íslandi fer til stóriðju, eða um 83 prósent. 

Þórdís Kolbrún segir í skriflegu svari til fréttastofu að stjórnvöld taki þessar ábendingar alvarlega. Óbreytt staða leiði vissulega af sér ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar. Starfshópur á vegum ráðuneytisins vinni nú að skýrslu um hvernig best sé að tryggja orkuöryggi almennings. Þá muni hann einnig skýra betur ábyrgð þeirra sem koma að orkumarkaðnum.

Fyrir liggja drög að skýrslu starfshópsins en ráðgert er að hann ljúki störfum í haust. Þá vinnur annar starfshópur að gerð langtímaorkustefnu fyrir Ísland sem mun líta dagsins ljós á næsta ári.

Þórdís segir að ef skerða þurfi rafmagn á álagstímum sé almenningur almennt látinn njóta forgangs. Skerpa þurfi þó á reglum sem kveði á um það. Þá sé nauðsynlegt að koma í veg fyrir að grípa þurfi til skerðinga.

Starfshópurinn mun draga upp mynd og mögulega setja fram einhverjar tillögur um lagaumhverfið, segir Kristín Haraldsdóttir, sem fer fyrir hópnum. Það sé hins vegar ráðherra að ákveða hvort það eigi að minnka álagið eða að virkja meira.