Gagnrýnendur Kiljunnar eru sammála því að það sé margt vel gert hvað varðar sögusvið og stíl Ármanns Jakobssonar í annarri glæpasögu hans, Urðarköttur. Persónusköpunina segja þau þó of flata og að bókin sé ekki nægilega ógnvekjandi sem glæpasaga.

Urðarköttur er önnur glæpasaga Ármanns Jakobssonar en í henni rannsakar sama lögregluteymi og í fyrri glæpasögu hans, Útlagamorðin, dularfull morð í Reykjavík. Tvær konur liggja í valnum og lögregluteymið á í basli með að komast til botns í því hvernig morðin tengjast. Enginn áttar sig á tilefni morðanna nema mögulega sá sem kallar sig urðarköttinn og skrifar lögreglunni dularfull bréf. Gagnrýnendur Kiljunnar eru sammála um að bókin sé skemmtileg en sem glæpasaga skorti hana spennu.

„Ég verð að koma því að strax að Ármann kenndi mér íslensku í Menntaskólanum í Reykjavík og gerði það með miklum myndarbrag. Hann er einn af mínum uppáhalds kennurum," segir Sverrir Norland og brosir. „Sögusviðið í bókinni er skemmtilegt og þetta er í raun skemmtisaga. Það er mikill sápuóperubragur yfir henni með mörgum karakterum og miklu gríni. Það verður þó kannski aldrei mikið rökkur eða mikil spenna.“

Kolbrún tekur undir að spennuna skorti en bendir á að hún hafi verið sérlega ánægð með frumsamið kvæði sem birtist í bókinni, sem hún segir mjög vel ort, og að þær aðferðir sem morðinginn beiti í sögunni til að koma fólki fyrir kattarnef hafi glatt sig. „Þarna er framið eftirlætistegundin mín af morðum en það eru eiturmorð í stíl Agöthu Christie. Mér finnst svoleiðis morð í sakamálasögum alltaf heillandi, sérstaklega þegar það á sér stað í afmörkuðu rými og það eru bara nokkrir sem koma til greina,“ segir Kolbrún en bætir því þó við að það sé ekki nægileg dýpt í persónusköpun bókarinnar að sínu mati. „Lögregluteymið samanstendur af persónum sem mér finnst renna saman og konurnar sem vinna á stofnuninni gera það líka. Persónusköpunin finnst mér eiginlega of flöt.“

„Hann hefði kannski mátt fækka persónum,“ samsinnir Sverrir. „Engu að síður er sagan skemmtileg og fyndin en hún er ekkert ofboðslega ógnvekjandi.“

Fjallað var um Urðarkött eftir Ármann Jakobsson í Kiljunni.