Tryggingafélög eru orðin meðvitaðri um loftslagsbreytingar en íslensku félögin eru þó að sögn Láru Jóhannsdóttur, lektors í umhverfis- og auðlindafræði við viðskiptafræðideild HÍ, eftirbátar félaga í Skandinavíu. Hún hefur síðastliðin ár rannsakað tryggingafélög og áhrif loftslagsbreytinga á þau.
Hafði unnið í tryggingageiranum í 14 ár
„Áhugi minn á þessu kviknaði út frá því að ég hafði unnið 14 ár í tryggingageiranum og lengi vel með gæðamál, umhverfismál og öryggismál á minni könnu og var eiginlega að horfa á þetta fyrst og síðast út frá því að fyrirtækin gætu gert betur í rekstri ef þau færu að horfa á þessi mál en svo kom strax í ljós þegar ég fór að lesa fræðin sem snerta tryggingafélög og umhverfismál að loftslagsmál eru áhyggjumál fyrir tryggingafélög í heiminum,“ segir hún. Í skýrslum loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna kemur fram að viðbúið sé að tryggingafélög verði fyrir neikvæðum áhrifum vegna loftslagsbreytinga. Þar er þó einnig horft á þau sem hluta af lausninni.
Segir Ísland hafa einangrast
Hér á landi hafa tryggingafélög þegar gripið til ákveðinna aðgerða, svo sem forvarna. Þau vara viðskiptavini sína til dæmis gjarnan við þegar hætta er yfirvofandi. Lára segir þó að meira þurfi að koma til. Hún segir umræðuna um þessi mál ekki nægilega mikla í tryggingageiranum hér á landi. Félög í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi hafi markað sér stefnu í loftslagsmálum árið 2009 og unnið náið með stjórnvöldum og sveitarfélögum til að bregðast við auknum öfgum í veðri, svo sem flóðum. Ísland hafi hins vegar einangrast, og ekki tekið þátt í vinnunni. Eitt af því sem kom fram í rannsókninni hjá mér er að það á sér stað ákveðin einangrun, tryggingafélögin hér hafa til dæmis ekki tekið þátt í ráðstefnum sem hafa verið haldnar á Norðurlöndunum. Mér finnst eðlilegt að tryggingafélögin ræði þessi mál, hugsanlega á breiðum grunni innan sinna samtaka, Samtaka fjármálafyrirtækja. Þannig sér maður þetta vera á Norðurlöndunum. Það væri eðlilegt að umræðan ætti sér stað og menn settu sér einhverja stefnu,“ segir hún.
Stefnan tekur til margra þátta
„Við sáum það árið 2009 að vátrygginga- og fjármálasamtök í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi gáfu út loftslagsyfirlýsingu um það hvað þau ætla að gera og það sem þau hafa valið að horfa á eru vörur og þjónusta, hvaða vörur og þjónustu þau bjóða sem tekur á áhættuþáttum tengdum loftslagsbreytingum, þeir horfa líka á tjón og forvarnir í þessu samhengi og fjárfestingar, hvar þau setja peningana það skiptir máli þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þau horfa til eigin starfsemi, hvernig lágmarka megi loftslagsáhrif af henni og hafa valið að fylgja þessu eftir með reglubundnum ráðstefnum um þessi mál,“ segir Lára.
Þörf fyrir tryggingavernd eykst
Hún segir að loftslagsbreytingar hafi í för með sér bæði tækifæri og áskoranir fyrir félögin. Þörf fyrir tryggingavernd muni líklega aukast og þar með skapist tækifæri fyrir félögin, svo framarlega sem þau marki sér stefnu um hvað skuli tryggja og hvernig og kaupi sér viðhlítandi endurtryggingavernd. Samkvæmt skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna sem gefin var út í fyrra skiptir það miklu máli að stjórnvöld starfi með tryggingafélögum og setji þeim skorður. Félögin geti eflt samfélagið og dregið úr varnarleysi þess gagnvart tjóni. Án skýrrar stefnumótunar gætu þau hins vegar gert illt verra.
Aukin ábyrgð hefur færst til ríkisins
Hér á landi tryggja félög á almennum markaði fyrir tjóni af völdum foks, asahláku og úrhellis en Viðlagatrygging Íslands, sem er ríkisstofnun, tryggir tjón af völdum eldgosa, jarðskjálfta, vatns- og sjávarflóða, svo einhver dæmi séu nefnd. Skörunin milli þeirra er lítil. Sums staðar á Norðurlöndunum hefur aukin ábyrgð færst yfir til ríkisins í kjölfar þess að ófyrirsjáanlegir atburðir verða fyrirsjáanlegir. Þá er orðið meira um deilur milli almennra borgara, tryggingafélaga og sveitarfélaga, um hver skuli bæta tjón, þar sem lög um ábyrgð eru oft óljós. Hlutverk Viðlagatryggingar Íslands gæti breyst, verði ofsaveður tíðari, en yfirfærsla á ábyrgð frá einkareknum félögum til Viðlagatryggingar vegna storms til dæmis er þó ekki í sjónmáli.
Þrýstingur félaganna mikilvægur
Tryggingafélögin ytra hafa þrýst á sveitarfélög og ríki um að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða og sum þeirra krefjast þess að viðskiptavinir þeirra geri breytingar á húsum sínum, vilji þeir tryggja hjá þeim. Lára segir að einn af þeim þáttum sem viðlagatrygging og einkareknu félögin þurfi að skoða í sambandi við loftslagsmál séu skipulagsmál almennt. Hvar við erum að byggja og hvernig. Kröfur í byggingareglugerðum. Þar geta tryggingafélögin komið inn líka varðandi óskir eða kröfur um breytingar ef í ljós kemur í þeirra tjónagögnum að það séu einhver vandamál sem tengjast byggingareglugerðum. Þau geta þá þrýst á um breytingar þar,“ segir Lára.
Danir skipuleggja sig frá vandanum
Þessi skipulagsvinna, einkum vegna hækkunar sjávarborðs, er langt komin í Danmörku og í Árósum stendur til að reisa flóðgáttir. Kirsten Brosbøl, umhverfisráðherra Dana, segir að veðuröfgar hafi aukist mikið í síðastliðin ár og telur hún engan vafa leika á því að stormarnir haldi áfram að skella á ströndum landsins. Hún segir að bregðast verði við þessari áskorun með breyttum áherslum í skipulagsmálum. Loftslagsaðlögunarverkefni ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir því að hvert sveitarfélag kortleggi hætturnar og áætli hvernig bregðast skuli við þeim.
Bankageirinn þurfi að átta sig á loftslagsáhættu
Lára segir að fjármálageirinn í heild þurfi að opna augun fyrir loftslagsbreytingum. Bankageirinn þurfi til dæmis að átta sig á loftslagsáhættum tengdum lánasamningum og vera betur í stakk búinn til að veita ráðgjöf þegar kemur að grænum fjárfestingum. Ísland sé þar engin undantekning. „Vissulega erum við eyland en ekki þegar við horfum á rekstur fyrirtækja í dag. Aðfangakeðjur fyrirtækjanna eru hnattrænar þau eru að selja vörur út um allan heim og fá vörur héðan og þaðan þannig að ef það verða tjón annars staðar, til dæmis flóð í Tælandi þá er skömmu síðar farið að skammta harða diska á Íslandi því Tæland er stór framleiðandi íhluta í tölvubúnaði um allan heim. Það verða skógareldar í Rússlandi og Rússar setja á bann á innflutning á korni þá hækkar strax heimsmarkaðsverð og skilar sér inn í vöruverð hér. Þannig að fyrir banka sem eru að lána fyrirtækjum sem eru með starfsemi víða um heim þar getur verið að koma einhver loftslagsáhætta inn líka.“