Sorgir er fimmta hljóðversplata Skálmaldar og lítur dagsins ljós þann 12. október. Síðasta plata sveitarinnar kom út fyrir réttum tveimur árum og ber nafnið Vögguvísur Yggdrasils. Þar var umfjöllunarefnið þægilegt og fallegt, vögguvísur úr hinum níu heimum goðafræðinnar en nú venda Skálmeldingar kvæði sínu í kross því umfjöllunarefnið er vægast sagt kalt, sorglegt og ömurlegt.
Sorgir er átta laga plata og spannar tvo kafla. Fyrri kaflinn nefnist Sagnir og segir fjórar smásögur sem allar fara illa, enda með dauða og óyfirstíganlegri sorg. Seinni kaflinn kallast Svipir og segir sömu fjórar sögurnar aftur en nú frá nýju sjónarhorni, sjónarhorni drauganna sem valda þessum hörmungum. Þannig tala lögin saman í pörum, 1 og 5, 2 og 6, 3 og 7 og að lokum 4 og 8. Þetta gefur plötunni áhugaverðan heildarsvip og talar þvert ofan í þær efasemdaraddir að hljómplatan sé deyjandi fyrirbæri. Eðli málsins samkvæmt er því hægt að festa kaup á gripunum á föstu formi í ýmsum útgáfum eins og þungarokkurum er von og vísa.
Tónlistin talar sínu eigin máli. Sorgir var tekin upp í Stúdíó Hljóðverki og unnin af Einari Vilberg en það mun í fyrsta sinn sem Skálmöld vinnur með honum og láta liðsmenn afar vel af því samstarfi. Þá er myndmálið kafli út af fyrir sig og varpar sterku ljósi á sögurnar, en það er unnið af Kristjáni Lyngmo sem sá líka um grafíkina fyrir Vögguvísur Yggdrasils.
Skálmöld ætlar að fagna útgáfunni á útgáfudag, næstkomandi föstudag, í Lucky Records og bjóða gestum til fundar þar klukkan 17:00. Fram undan er síðan Evróputúr til að fylgja plötunni eftir sem spannar útlegð frá nóvember fram í mars. Ef að líkum lætur mega Íslendingar búast við útgáfutónleikum í apríl þótt ekkert hafi verið ákveðið endanlega.
Snæbjörn og Baldur Ragnarssynir spila plötuna Sorgir í heild sinni og kynna lögin á gripnum í spilara hér að ofan.