Böðvar Guðmundsson rithöfundur er fæddur á Kirkjubóli í Hvítársíðu. Hann hefur skrifað geysivinsælar skáldsögur, Hýbýli vindanna og Lífsins tré, þar sem segir af Vesturförunum, Íslendingum sem fluttust búferlum til Kanada um aldamótin 1900.

Fyrsti hluti sagnanna gerist einmitt í nálægum sveitum. Bækurnar segja frá fólki sem flosnar upp, hrekst úr landi og leitar að betra lífi á nýjum slóðum. Innflytjendur heitir það í dag og eru eitt heitasta mál samtímans. Ráðandi öfl voru ekki hrifin af því að verkafólk hefði möguleika á að flýja á brott og þeir sem urðu eftir kröfðust þá oft hærra kaups. Til að sporna við þróuninni var reynt að beita vaxandi þjóðerniskennd, þeir sem leituðu sér og fjölskyldu sinni farborða í Vesturheimi voru ýmist kallaðir þjóðníðingar eða föðurlandssvikarar.

Böðvar Guðmundsson fékkst við ljóðagerð framan af en fór svo að skrifa leikrit. Hann var einnig söngvaskáld og kom fram sem trúbador í frægum sjónvarpsþætti 1974 sem var bannaður. Þá var Böðvar hápólitískur og söng lög gegn Víetnamstríðinu og heimsvaldastefnu Bandaríkjanna. Faðir hans var Guðmundur Böðvarsson, skáld og bóndi, sem var framsóknarmaður framan af en hneigðist svo til sósíalisma eftir að hafa komið til Reykjavíkur og orðið vitni að örbirgð verkafólksins. Hann bjó alla tíð á Kirkjubóli og gaf út æviminningar sínar í bókinni Sögur úr Síðunni. Þar segir meðal annars af því þegar landsfræg skáld komu í heimsókn til hans og sátu að sumbli. Hann spurði hvort þau könnuðust nokkuð við Dry Martini.

„Það er stórhættulegur fjandi,“ sagði Steinn Steinarr. „Passaðu þig á honum.“

„Það er blanda af vermóði og brennivíni,“ sagði Þórunn Elfa, „haltu þig heldur við það óblandaða. Konujakið gerir engum mein.“

„Það er vatn í Dry Martini,“ sagði meistari Þórbergur. „Það er útvatnað glundur.“

„Séní eins og þú nafni minn,“ sagði Jóhannes úr Kötlum, „séní eins og þú eiga ekki að drekka annað en séníver.“