Landinn heldur áfram hringferð sinni um landið í sólarhringsútsendingu sem lýkur í kvöld. Gunnar Birgisson var á leið um Þórshöfn á Langanesi þegar honum var óvænt boðið í kaffi og sterkara með því.
„Hvað eruð þið að gera með myndvélar?“ var æpt þegar Gunnar og tökulið áttu leið um aðalgötuna en þar voru til húsa Abba og maður hennar sem eiga víst eitt stærsta kakókönnusafn landsins. Þau voru að sjálfsögðu með heitt á könnunni og meira til. Gunnari leist þó ekkert á koníakið svona snemma dags en klukkan var rúmlega eitt eftir hádegi. „Því miður, ég er bara ekki alveg þar.“ Það kom því í hlut tökumannsins skelegga, Gríms Jóns Sigurðssonar eða Gimma, að dreypa á koníaki fyrir hópinn. Honum er greinilega margt til lista lagt því flutningur hans á Doors-laginu Light My Fire á orgel Húsavíkurkirkju í nótt vakti mikla athygli. „Ætli ég verði ekki að taka þetta mig. Skál fyrir hönd Landans!“ sagði Gimmi áður en hann dreypti á guðaveigunum.
Teymin fimm eru enn á flakki landshorna á milli í beinni útsendingu á RÚV 2 og vefnum. Allt samfélagið er undir í útsendingunni; atvinnulíf, félagslíf, mannlíf og reynt að sýna sem allra mest af því sem drífur á daga landans á einum sólarhring. Landinn lítur við á vinnustaði, út í búð, inn í eldhús hjá fólki, í fjósum og víðar. Að auki fá áhorfendur að skyggnast á bak við tjöldin í sjálfri útsendingunni sem lýkur í kvöld klukkan 20:15.