Ferðamenn sem fréttastofa tók tali í dag voru sumir innlyksa í Leifsstöð í 13 tíma. Örtröð bíla að flugstöðinni olli því að sjúkrabíll komst ekki að vegna manns í hjartastoppi.

Yfir 500 ferðamenn leituðu skjóls í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Keflavík í gærkvöld. Þetta er átjánda fjöldahjálparstöðin sem Rauði krossinn opnar á rúmum mánuði. Hátt í 180 gistu þar í nótt, aðrir leituðu á hótel.  

„Þetta voru undarlegar aðstæður, að deila svefnstað með fjölda fólks í leikfimisal skóla,“ segir Johanne Simson.

„Fólk er að öllu jafna nokkuð yfirvegað og rólegt, þótt það sé orðið þreytt. Það vonast svo sannarlega til að komast héðan burtu í dag, þeir sem eiga flug,“ segir Aðalheiður Jónsdóttir, teymisstjóri Neyðarvarna.

Fólk fast í tíu vélum

Um fjögur þúsund voru á Keflavíkurflugvelli í gær þegar mest var, fólk sem ætlaði í flug og farþegar tíu flugvéla sem var ekki hleypt úr vélunum eftir að þær lentu vegna fárviðris.

„Fimm eða sex tímar um borð í vélinni eftir lendingu. Það var alveg bilað; ég fann meira fyrir ókyrrð á jörðu en í loftinu,“ sagði John Durban. 

„Við fórum í gegnum öryggiseftirlitið og biðum í þrettán tíma: enginn fékk að sækja farangur því örtröðin var svo mikil. Við sátum föst,“ sagði Brendon Collin.

„Við áttum ekki von á því að veðrið yrði svona slæmt enda hafði því ekki verið spáð,“ segir Guðmundur Ólafsson forstöðumaður flugafgreiðslu hjá Icelandair.

Margir lentu í vandræðum á leiðinni til og frá Keflavíkurflugvelli í gærkvöld. Frá flugstöð að þjóðbraut var bíll við bíl. Sumir brugðu á það ráð að ganga að flugstöðinni og skilja bílana sína eftir

„Mig grunar að það hafi skapað þetta vesen sem varð og snjóruðningstæki til dæmis gátu ekki athafnað sig vegna bíla sem höfðu verið skildir eftir,“ segir Sigvaldi Arnar Lárusson, aðalvarðstjóri.

Hefði þurft að loka Reykjanesbrautinni fyrr? „Það er alltaf matsatriði, já ég tel það. Allar lokanir eru á forræði Vegagerðarinnar en það er erfitt að meta þetta,“ segir Sigvaldi.

Tók sjúkrabíl yfir hálftíma að komast að flugstöðinni

Maður á áttræðisaldri fór í hjartastopp í flugstöðinni á meðan ekki var hægt að komast að vegna bílaörtröðar. Sjúkrabíllinn var meira en hálftíma á leiðinni frá Keflavík og komst ekki eftir hefðbundnum leiðum heldur var hliðarvegur frá Ásbrú með fram flugbrautinni ruddur sérstaklega.

„Vel þjálfað starfsfólk frá Isavia, lögreglu sáu um að koma hjartastuðtæki á manninn, þau komu honum af stað, gáfu honum stuð, hann var fluttur til Reykjavíkur. Sem er frábært afrek hjá þessu fólki, sýnir hvað það er nauðsynlegt að vera með skyndihjálpina á hreinu,“ segir Sigvaldi jafnframt.