Hundrað og fjörutíu milljónir króna verða veittar í styrki til nýsköpunar- og fræðsluverkefna á sviði loftslagsmála á næstu tveimur árum. Opnað hefur verið fyrir umsóknir hjá Loftslagssjóði. Alls hefur sjóðurinn úr að spila 500 milljónum króna á næstu fimm árum. Sjóðurinn var stofnaður 2012 en var kynntur í dag.
Árið 2012 bauð Ólafur Ragnar Grímsson sig fram til embættis forseta Íslands í síðasta sinn og var kjörinn. Sama ár var loftslagssjóður stofnaður. Á þeim sjö árum sem eru liðin hefur ekkert gerst með sjóðinn, hann hefur legið í dvala, þangað til núna. Sjóðurinn var kynntur í Norræna húsinu í dag og jafnframt opnað fyrir umsóknir.
Hvers vegna er núna fyrst verið að kynna sjóðinn?
„Ja, það er bara kannski vegna þess að ríkisstjórnin er að grípa til fjölmargra aðgerða í loftslagsmálum og þar með talið að setja fjármagn til nýsköpunar og fræðslu sem þessum sjóði er ætlað að sinna,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra (V).
Hvenær búist þið við að byrja að taka við umsóknum?
„Umsóknarkerfið verður opnað í dag og umsóknarfrestur rennur út 30. janúar kl. 16.00,“ segir Hildur Knútsdóttir, formaður loftslagssjóðsins.
500 milljónir á fimm árum, er búið tryggja þessa fjármuni?
„Þessir fjármunir eru tryggðir í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem hefur verið samþykkt á Alþingi. Við byrjum á því að úthluta 140 milljónum og svo kemur þetta smátt og smátt,“ segir Guðmundur Ingi.
Hversu háir styrkir eru þetta?
„Við ætlum að veita tvenns konar styrki. Það verða styrkir til kynningar og fræðslu á loftslagsmálum og þeir verða að hámarki fimm milljónir króna og svo verða styrkir til nýsköpunarverkefna og þeir verða að hámarki tíu milljónir,“ segir Hildur.
Það á að loka fyrir umsóknir í lok janúar, hvenær búist þið við að fyrsta úthlutunin verði?
„Ég hugsa svona í lok mars, fyrsta úthlutun kynnt,“ segir Ása Guðrún Kristjánsdóttir, sérfræðingur hjá Rannís, sem hefur umsjón með sjóðnum.
Er hægt að giska á hvers konar nýsköpunarverkefni þetta verða?
„Við í stjórninni höfðum ákveðnar hugmyndir um hvernig verkefni gætu komið inn en svo vorum við líka meðvituð um að það er mjög mikil gerjun í samfélaginu og við vildum ekki loka á neitt fyrir fram ef það væri eitthvað frábært sem við vissum ekki af,“ segir Hildur.