Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að það skýrist á næstu dögum hvort grundvöllur sé fyrir ríkisstjórn fimm flokka. Helstu ágreiningsmál milli flokkanna séu sjávarútvegsmál og skattamál. Enn er fundað í Alþingishúsinu. 

Formlegar stjórnarmyndunarviðræður Vinstri grænna, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar hófust í dag. Málefnahópar funduðu fram eftir degi á Alþingi, en að þeim loknum tók þingflokksfundur Vinstri grænna við, sem stendur enn yfir.

Katrín segir mikinn samhljóm milli flokkanna í sumum málum en meira beri í milli í öðru. Enn sé ótímabært að segja til um hvort flokkarnir nái saman. 

„Ég held að það skýrist í þessari viku, jafnvel upp úr miðri viku hvort af þessu verður eða ekki. Ef það liggur svona nokkurn veginn fyrir þá er auðvitða heilmikil vinna eftir að skrifa stjórnarsáttmála og annað. Ég held að við gefum okkur tíma fram í vikuna til að átta okkur á því hvort af þessu verður eða ekki.“